Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Tengsl fínustu háskólanna við þrælahaldið

Mynd: Peabody Museum, Harvard Universi / Wikimedia

Tengsl fínustu háskólanna við þrælahaldið

17.03.2017 - 16:10

Höfundar

Í æ meiri mæli rannsaka bandarískir fræðimenn tengsl bandarískra háskóla við þrælahaldið sem þar viðgekkst á öldum áður. Meðal skólanna eru þeir allra merkustu, skólar sem teljast til „Ivy League“ flokksins svokallaða.

Fjallað var um ráðstefnu um þessi mál í Víðsjá en hlusta má á pistilinn hér að ofan. 

Bandarískir háskólar eru fjölmargir eins og gefur að skilja. Líklega eru hátt í fimm þúsund skólastofnanir, með margs konar skipulagi og rekstrarformi, sem bjóða upp á nám í Bandaríkjunum sem líkur með ýmiskonar háskólagráðum.

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia
„Ivy League“ skólarnir í norðaustur hluta Bandaríkjanna

Stigveldi þessara skóla er vel þekkt en meðal þeirra allra fínustu eru Ivy League skólarnir svokölluðu í norðaustur hluta þessa víðfeðma lands. Þeir hófu að keppa sín á milli ýmsum íþróttum forðum daga og stofnuðu til þess sérstaka deild, Ivy League, árið 1954 þó að sagan sé lengri. Meðal þeirra eru til dæmis Brown University í Providence í Rhode Island, Columbia háskóli í New York, Yale og Princeton og síðast en ekki síst Harvard háskóli í Cambridge hverfinu í Boston.

Ráðstefna í Harvard

Í Harvard var á dögunum haldin forvitnileg ráðstefna sem hafði með sögu margra merka háskóla í Bandaríkjunum að gera. Greint er frá umræðum á ráðstefnunni í Harvard tímaritinu sem lesa má á netinu.

Ráðstefnan hét einfaldlega Háskólar og þrælahald og þar var velt upp ýmsum hliðum á sögu þessara merku menntastofnanna og hvernig hún var á stundum samþætt myrkum hliðum bandarískrar sögu.

Mynd með færslu
 Mynd: YU-JEN SHIH - Flickr
Harvard háskóli

Á síðustu rúmum tíu árum hafa tengslin komið í ljós. Hjá Harvard og fleiri skólum hefur komið í ljós að löngu eftir að þrælahald var aflagt í norðurhluta Bandaríkjanna voru eigendur þræla meðal starfsmanna og stjórnenda skólanna. Skólarnir þáðu gjafir frá forríkum þrælaeigendum og byggingar byggðar eða niðurgreiddar með vinnuframlagi þræla.

Harvard tímaritið vitnar til orða bandaríska höfundarins og blaðamannsins Ta-Nehisi Coates sem tók þátt í ráðstefnunni sem sagði einfaldlega að þrælahald væri ekki misfella í veginum hjá bandarísku þjóðinni, heldur væri það einfaldlega vegurinn sem framþróun samfélagsins hefði ferðast eftir.

Nýjar áherslur um aldamót

Árið 2001 tók Ruth Simmons við rektorsstöðu í Brown háskólanum, fyrst kvenna og jafnframt var hún fyrsti svarti rektor Ivy League háskóla í Bandaríkjunum. Tveimur árum síðar lýsti hún því yfir að nefnd myndi rannsaka söguleg tengsl skólans við þrælahald og að öðrum tveimur árum liðnum kom út skýrsla sem sýndi fram á þessa löngu horfnu fortíð skólans. Viðbrögð annarra álíka menntastofnanna voru engin á þessum tíma en þó hafði rannsóknin þau áhrif að sagnfræðiprófessorinn Sven Beckert við sjálfan Harvard háskóla fór að láta nemendur sína gramsa í fortíð skólans sem þeir stunduðu nám við.

Mikil umræða í dag

En nú eru nýjir tímar og fjölmargir topp-háskólar áttu fulltrúa sína á ráðstefnunni í Harvard þar sem fjallað var um tengsl menntastofnanna við þrælahaldið. Í Harvard hefur jafnframt hefur verið opnuð sýning sem bregður ljósi á þessi tengsl.

Ta-Nehisi Coates delves into the conflicted and hopeful state of black America today. What does "black culture" mean? What is the continuing role of both the older and younger generations in shaping it? Where will gentrification, education, and
 Mynd: University of Michigan - Flickr
Ta-Nehisi Coates

Nú er jafnvel farið að tala um einhvers konar sannleiks- eða sáttanefndir í þessu tilfelli og í ræðu sinni á ráðstefnunni talaði áðurnefndur Ta-Nehisi Coates um skaðabætur. „Ég tel að hver og einn þessara háskóla þurfi að gera upp þessi mál og greiða skaðabætur,“ sagði Coates. „Ég skil ekki hvernig hægt er að rannsaka fortíð sem sýnir að tilvist þessara skóla er byggð á alvarlegum glæpum og segja síðan bara „jæja“ og yppta öxlum og í mesta lagi bæta afsökunarbeiðni við.“

Nafnabreytingar

Endurskoðun á sögu háskólanna sem um ræðir á sér ýmsar hliðar. Til dæmis hefur verið sýnt fram á mikla grimmd Isaacs Royall, sem á sinni tíð var mikill velgjörðarmaður Harvard háskóla. Sjálf lagadeild skólans, einhver virtasta lagadeild heims var stofnsett með fjárframlögum þessa manns árið 1817. Sýnt hefur verið fram á hvernig Royall þessi kæfði með harðri hendi uppreisn þræla sinna árið 1736 en í kjölfarið voru 77 þrælar brenndir á báli fyrir bíræfnina.

Mynd með færslu
 Mynd: John Singleton Copley - Wikimedia
Isaac Royall

Í kjölfar mótmæla nemenda við Harvard undir yfirskriftinni Royall Must Fall var merki sjálfrar lagadeildarinnar að breytt en það var áður byggt á skjaldarmerki fjölskyldu Royall. Við aðra skóla hefur nöfnum á byggingum verið breytt þegar rannsóknir um myrka fortíð þrælatímans hafa komið upp á yfirborðið.

Nóg að gert?

En er það nóg, að breyta nöfnum bygginga og fela tengingar við fortíðina? Nei segja margir og þar á meðal áðurnefndur Coates. „Bandaríkin eru ekki land sem með „smávegis“ þrælahaldi heldur var samfélagið gegnumsýrt af þessu ofbeldi. Þegar háskólar byggja tilvist sína á slíku arðráni verða þessar stofnanir, sem í hinu orðinu kenna fólki siðferði og siðfræði, að gera rétt og breyta rétt. Það er engin leið í kringum það.“ Aðrir á ráðstefnunni bentu á að slíka yfirbót háskólanna þyrfti að hafa efnahagslegar og pólitískar afleiðingar í för með sér. Ekki væri nóg að hún væri aðeins í orði eða með táknrænum hætti.

Nýir tímar

En af hverju er allt í einu núna verið að kafa ofan í þessa fortíð sem auðvitað hefur að einhverju leyti verið vitað af síðustu áratugi? Jú, svörtum nemendum og starfsfólki við þessa skóla hefur fjölgað. Það sem á áttunda áratugnum kann að hafa verið málefni lítils hóps svartra nemenda er nú nær meginstraumnum í háskólasamfélaginu. Einn fræðimaðurinn á ráðstefnunni orðaði það svo að nú það væru alltaf færri og færri nemendur sem tækju því sem sjálfsögðum hlut að sitja í skreyttum sölum háskólanna með steindum gluggum þar sem hamingjusamir þrælar týndu bómull á ökrunum. Landslagið væri allt annað og fólk sætti sig ekki við að þessi minnismerki arðráns og ofbeldis væru hluti af menntun þeirra og upplifun af henni.

Nánar má lesa um þessa ráðstefnu í tímariti Harvard háskóla en uppgjör bandarískra háskóla við arfleifð þrælatímans er greinilega rétt að hefjast.