Tengsl brennisteinsmengunar og asma

04.08.2012 - 12:21
Mynd með færslu
 Mynd:
Íbúar á höfuðborgarsvæðinu keyptu meira af asmalyfjum þegar brennisteinsmengun lagði yfir bæinn á þriggja ára tímabili. Þetta kemur fram í rannsókn á áhrifum brennisteinsvetnismengunar á öndunarfærasjúkdóma.

Þegar brennisteinsvetnismengun er á höfuðborgarsvæðinu fara fleiri íbúar í apótek til að kaupa asmalyf heldur er þegar engin mengun er.  Þetta kemur fram í rannsókn sem Hanne Krage Carlsen, doktorsnemi í lýðheilsuvísindum gerði. „Þá kemur það í ljós að í hvert sinn þegar  mengun eykst þá eykst líka sala á lyfjunum og þegar mengunin er minni þá er líka minni sala á lyfjunum með þessari þriggja til fimm daga seinkun,“ segir Hanne Krage.

Greinilegur munur

Rannsóknin snerist um tengsl á milli loftmengunar á höfuðborgarsvæðinu og úttektar á asmalyfjum eins og hún kemur fram í lyfjagagnagrunni Landlæknisembættisins.  Skoðað var mengunarstig á hverjum degi og það borið saman við hve margir tóku út asmalyf þann dag og þrjá til fimm daga á undan. 

Hanne skoðaði gögn frá því mælingar á brennisteinsvetnismengun hófst í febrúar 2006 og fram til 31. desember 2009 og segir greinilegan mun eftir mengun: Þegar maður ber saman daga þar sem næstum því er engin mengun við þá daga þegar mengunin er mest er  þá munar það um fimm til 10 prósent aukning á fjölda fólks sem þarf að fylla á lyfjaskammtinn sinn.“

Fyrsta rannsókn af þessu tagi

Þetta er í fyrsta sinn sem rannsókn af þessu tagi er gerð á Íslandi og var sagt frá henni í vísindatímaritinu Environmetal Research í vor. Fáar rannsóknir eru til um áhrif brennisteinsvetnismengunar en til er rannsókn frá Nýja Sjálandi á íbúum í plássi þar sem er háhitasvæði. Niðurstöður hennar sýna að þeir sem búa þar sem mengunin er mest  eru með hærri tíðni af öndunarfærasjúkdómum.

Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi