Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Telur skynsamlegast að styrkja heilsugæsluna

11.10.2017 - 14:07
Mynd með færslu
Mynd úr safni.  Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Ef auka á fjárframlög til heilbrigðiskerfisins er skynsamlegast að verja þeim peningum til að styrkja heilsugæsluna í landinu. Þetta segir forstjóri Heilbrigðisstofnunar Norðurlands. Það sé ódýrara fyrir almenning að fara til heimilislæknis, en að sækja þjónustu sérfræðinga um langan veg.

Víða þarf fólk að fara um langan veg til að hitta lækni. Á  mörgum heilsugæslustöðvum er ekki dagleg þjónusta og einn læknir þjónar jafnvel nokkrum byggðarlögum.

Heilsugæslustöðvar gætu gengt stærra hlutverki

Jón Helgi Björnsson, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Norðurlands, var gestur Morgunvaktarinnar á Rás1 í morgun. Þar sagði hann að heilsugæslustöðvar gætu gengt mun stærra hlutverki í heilbrigðiskerfinu. Með því að auka fjármagn til grunnþjónustunnar megi minnka álag á sérhæfða þjónustu og spara þannig fjármagn. „Þannig að ég held, að ef menn vilja setja meiri fjármuni inn í heilbrigðiskerfið, þá sé það að mörgu leyti mjög skynsamlegt að gera það einmitt í heilsugæslunni.  Og styrkja þá sálfræðiþjónustu þar, læknisþjónustu og heimahjúkrun.“

Sterkari heimahjúkrun og þjónusta heimilislækna

Með sterkari heimahjúkrun geti aldraðir verið lengur heima, það minnki þörf fyrir hjúkrunarrými og sérhæfða þjónustu. Þá sé almennt ódýrara að fara til heimilislæknis og fá úrlausn sinna mála þar, en að leita til sérfræðinga, oft um langan veg. „Þannig að ég held að þetta sé skynsamleg forgangsröðun,“ segir Jón Helgi.

Þyrfti að auka fjárveitingar jafnt og þétt

Hann segir að undanfarin þrjú ár hafi Heilbrigðisstofnun Norðurlands fengið aukið rekstarfé sem hafi nýst til að bæta þjónustuna. En þar megi gera betur. „Og eins og fjármálaáætlunin, sem var til fimm ára var sett upp, var hún svolítið afturþung. Þannig að það kemur lítið inn núna og meira seinna. Við hefðum auðvitað kosið að menn myndu auka fjármuni til þessarar þjónustu jafnar. Ég held að það væri skynsamlegt að byggja hana hægt og rólega upp. Við myndum örugglega geta gert góða hluti ef við fengjum meiri fjármuni, klárlega.“