Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Telur sig geta varpað nýju ljósi á málið

28.04.2018 - 11:59
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend mynd
Bragi Guðbrandsson, sem er í ársleyfi frá starfi sínu sem forstjóri Barnaverndarstofu, sendi velferðarnefnd Alþingis bréf í dag þar sem hann óskar eftir að fá að koma á fund nefndarinnar við fyrsta tækifæri, helst á mánudagsmorgun. Hann segist í bréfinu telja sig geta varpað nýju ljósi á málið „sem kollvarpi þeirri mynd sem dregin hefur verið upp í umfjöllun Stundarinnar um málið og í kjölfar hennar.“

Fréttastofa greindi frá því í lok nóvember að Bragi væri sakaður um að hafa hlutast til um mál föður sem grunaður væri um kynferðisbrot gegn börnum sínum.

Í frétt RÚV af málinu kom fram að Bragi hefði hringt í barnaverndarstarfsmann sem annaðist mál barna sem grunur lék á að hefðu verið beitt kynferðisofbeldi af hálfu föður síns. Starfsmaðurinn sagði Braga hafa efast um nauðsyn þess að senda málið í Barnahús eftir að það hafði verið kært til lögreglu, föðurfjölskyldan hefði haft samband og sagst trúa því að faðirinn væri saklaus. Þá hafi Bragi óskað eftir því að starfsmaðurinn reyndi að tala um fyrir móður barnanna og segja henni að tálma ekki umgengni.

Málið var síðan rakið ítarlega í umfjöllun Stundarinnar í gær en fréttastofa hefur ítrekað óskað eftir upplýsingum um lyktir þess hjá bæði Braga og Ásmundi Einari Daðasyni, félagsmálaráðherra.

Halldóra Mogensen, formaður velferðarnefndar, hefur boðað Ásmund Einar á opin fund nefndarinnar á mánudag. Hún sagði í samtali við fréttastofu í gær að Ásmundur yrði að skoða hvort hann ætti að segja af sér, reyndist það rétt að hann hefði haldið upplýsingum leyndum fyrir Alþingi og velferðarnefnd vegna máls Braga.

Ásmundur sagði í kvöldfréttum RÚV í gærkvöld að hann hefði ekki leynt gögnum um rannsóknina og hann stæði við þá niðurstöðu að hvorki Bragi né Barnaverndarstofa hefðu gerst brotleg í starfi.