Telur sig eiga góða möguleika í oddvitann

Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink RÚV - RÚV Anton Brink
Þórunn Egilsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, segist bjóða sig fram af fullri alvöru til að leiða lista Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi. Hún telur sig eiga góða möguleika í oddvitasætið. Kosið verður á tvöföldu kjördæmisþingi í Mývatnssveit á morgun. Líneik Anna Sævarsdóttir telur sig einnig eiga möguleika í fyrsta sætið og formaður flokksins segir að fólk vilji sýna styrk með því að bjóða sig fram ofarlega á lista. 

Tvöfalt kjördæmisþing Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi fer fram í Mývatnssveit á morgun. Fjórir þingmenn bjóða sig fram til að leiða listann: Þórunn, Líneik, Höskuldur Þórhallson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður. 

Vill leiða listann

Þórunn segist vel stemmd fyrir morgundeginum og finnur fyrir miklum áhuga í kjördæminu. Hún býður sig fram í fyrsta til annað sæti, en undirstrikar að hún vilji leiða listann. 

„Ég er að bjóða mig fram í fyrsta sæti. Af fullri alvöru,” segir hún.  

Spurð hvort hún sé þar með að skora Sigmund Davíð á hólm, segir Þórunn að hún telji sig eiga góða möguleika í oddvitasætið og hefur fundið fyrir miklum stuðningi. 

„Ég er bara að verða fyrir óskum fólks í kjördæminu. Ég hef fengið mikla hvatningu til þess og er að verða við því.” 

Mikilvægt að fleiri valkostir séu í boði

Líneik býður sig fram í fyrsta til þriðja sæti. Hún segist líka hlakka til morgundagsins og telur sig eiga möguleika í oddvitasætið. 

„Ég er að gefa það til kynna að ég er tilbúin að taka þá ábyrgð sem Framsóknarmenn á þessu svæði vilja fela mér og mér finnst mikilvægt að það séu valkostir í boði. Ólíkir valkostir,” segir hún. 

Hefur skilning á framboðum ofarlega á lista

Sigmundur Davíð vill halda sínu sæti í kjördæminu, en hann segist hafa skilning á því að fólk bjóði sig fram gegn honum. 
 
„Þegar menn sækjast eftir ákveðnu sæti, hér er talað um fyrsta til annað sæti, og fyrsta til þriðja sæti, þá vilja menn sýna styrk og um leið lýsa því yfir að þeir séu tilbúnir í hvað sem er. Ég hef alveg skilning á því,” segir hann.  

Ekki hefur náðst í Höskuld Þórhallsson í morgun. 

sunnav's picture
Sunna Valgerðardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi