Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Telur Ríkið henta litlum brugghúsum betur

08.02.2017 - 12:05
Bjórglös með mismunandi tegundum af bjór.
 Mynd: Stocksnap.io
Smærri áfengisframleiðendur eru ekki á eitt sáttir um áhrif þess að afnema einkaleyfi ríkisins á áfengissölu. Bruggmeistari á Siglufirði telur að núverandi tilhögun henti litlum brugghúsum betur.

 

Skiptar skoðanir eru um frumvarp þess efnis að einkaleyfi ÁTVR á smásölu áfengis og bann við áfengisauglýsingum verði aflagt.

Eigandi brugghússins Steðja í Borgarfirði sagði í fréttum í gær að reglur ÁTVR kæmu illa við smærri innlenda áfengisframleiðendur. Þær hindruðu að þeir kæmu vörum sínum í almenna sölu í heimabyggð, því erfitt væri að komast með fágæta vöru í smærri vínbúðirnar.

Marteinn Brynjólfur Haraldsson, eigandi og bruggmeistari hjá Segli 67 á Siglufirði, er á öðru máli. Hann segir að núverandi kerfi sé vissulega þungt í vöfum, en óttast að smærri framleiðendur yrðu enn verr úti ef salan yrði gefin frjáls.

„Persónulega vildi ég það alltaf fyrir nokkrum árum, en í dag þegar maður er kominn með lítið brugghús, þá sé ég fram á óvissutíma ef úr verður,“ segir Marteinn. „Þá þurfum við líklega að sjá um alla dreifingu og sölu sjálfir. Það fer líklega mikil vinna í að hafa samband við alla þessa söluaðila og standa undir öllum kostnaði og vinnu við það, svo fyrir okkur minni framleiðendurna gæti þetta orðið svolítið erfitt.“

Verslunarstjórar geta valið fágætari tegundir

Marteinn segir að Segull 67 hafi fengið inni í litlum vínbúðum víða á Norðurlandi. Steinunn Jóhannsdóttir, verslunarstjóri Vínbúðarinnar á Dalvík tekur undir það og segir að verslunarstjórarnir hafi töluvert frelsi til að taka inn þær tegundir sem þeir kjósi, til dæmis frá litlum framleiðendum í heimabyggð. Þeim séu ekki settar þröngar skorður.

„Nei, mér finnst það ekki,“ segir Steinunn. „Auðvitað er einhver rammi sem örugglega þarf að hafa, en það er alveg sveigjanleiki. Ef maður vill fá einhverja vöru inn þá fær maður það.“