Telur orkupakkann ekki framsal á fullveldi

24.11.2018 - 20:25
Mynd með færslu
Bjarni Már Magnússon, dósent við lagadeild HR. Mynd:
Ríki eru að nýta sér fullveldi sitt með því að gerast aðilar að alþjóðastofnunum og samningum en ekki að skerða það, að sögn Bjarna Más Magnússonar, dósents við lagadeild Háskólans í Reykjavík. Hann fjallaði um þessi mál í erindi sínu á ráðstefnunni Fullveldi og þjóðaröryggi í Hörpu í gær.

Þriðji orkupakkinn hefur verið áberandi í umræðunni að undanförnu. Hann kveður á um frjálsa samkeppni orkufyrirtækja þvert á landamæri aðildarríkja ESB og EES. Ríkisstjórnin leggur fram fumvarp um aðild að honum á Alþingi á næsta ári. Með lagningu sæstrengs yrði hægt að tengja Ísland við evrópska orkumarkaðinn.

Þau sjónarmið hafa heyrst að með aðild að þriðja orkupakkanum væri Ísland að framselja fullveldið. Þriðji orkupakkinn er hluti af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, sem Ísland á aðild að. Bjarni Már er annarrar skoðunar og segir hann ekki fela í sér afsal fullveldis. „Hluti af fullveldinu að gerast aðili að alþjóðastofnunum og sá samningur sem hér um ræðir er EES-samningur. Ísland var hreinlega að nýta sér fullveldið þegar það gerðist aðili að EES samningnum,“ segir Bjarni Már. Aðild að alþjóðastofnun geti þó að einhverju leyti skert athafnafrelsi ríkis en það sé hluti af fullveldinu. Stjórnvöld ákveði hvort ríki gerist aðilar að stofnunum og samningum.

Á hverju telur þú þessi sjónarmið byggja, að í því felist afsal á fullveldi að samþykkja samning eins og þriðja orkupakkann? „Þetta er svona hugsunarháttur eins og fullveldið sé kaka, svona fullveldiskaka, sem er hægt að sneiða niður í búta og þá bara hverfur fullveldið. Eins og kaka sem fer niður í munn fólks og bara hverfur.“

Frétt uppfærð 25.11.2018, klukkan 08:34: Fyrirsögn fréttarinnar hefur verið breytt. Hún var áður: Telur þriðja orkupakkann ekki valdaframsal.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi