Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Telur ójöfnuð ógna stöðugleika á vinnumarkaði

13.09.2018 - 23:27
Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, segir mikilvægt að tryggja áfram festu og varfærni í stjórn opinberra fjármála þegar viðbúið sé að hægist á. Þingmaður Samfylkingarinnar segir að mikill eignaójöfnuður hér á landi ógni stöðugleika á vinnumarkaði.

Fjármálaráðherra mælti fyrir fjárlagafrumvarpi næsta árs á Alþingi í morgun og fór í framsögu sinni yfir stöðuna og innihald frumvarpsins, um hækkanir til hinna ýmsu málaflokka. Hann vísaði á bug fullyrðingum um að báknið væri að vaxa í frumvarpinu. Lífskjör hefðu líklega aldrei verið betri hér en nú. Hann sagði ríkisstjórnina leggja mikla áherslu á samtal við aðila vinnumarkaðarins á næstunni. 

„Efnahagsuppbygging síðustu ára hefur skilað miklum árangri, afgangur af viðskiptajöfnuði og af afkomu hins opinbera endurspeglast í auknum þjóðhagslegum sparnaði en auk þess sem skuldir ríkissjóðs hafa verið lækkaðar hafa háar fjárhæðir verið greiddar inn á lífeyrisskuldbindingar eins og hér hefur verið komið inn á. Mikilvægt er nú þegar gera má ráð fyrir að í sljákki eftir mikinn vöxt síðustu ára að áfram sé tryggð festa og varfærni í stjórn opinberra fjármála,“ segir Bjarni.

„Hvað er öðruvísi nú, því þetta hefur aldrei farið vel, þessi mikla útgjaldaþensla á þessum tímapunkti hefur aldrei verið neitt sérstaklega góð hugmynd í íslenskri hagstjórn,“ sagði Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar.

Þótt margir þingmenn stjórnarandstöðu lýsi yfir ánægju með eitt og annað í fjárlagafrumvarpinu, þá er rauði þráðurinn almenn vonbrigði með frumvarpið í heild sinni. Það sé útgjaldafrumvarp án aðhalds sem ýti undir ójöfnuð og ríkisstjórnin teygi sig alls ekki nægilega langt í átt að þeim sem verst hafi kjörin.

„Í fyrsta lagi virðist ríkisstjórnin ekki vera tilbúin að ráðast gegn þessum mikla eignaójöfnuði sem ógnar hér beinlínis stöðugleika á vinnumarkaði, hann ógnar stöðugleikanum hér,“ sagði Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar.
 

johannav's picture
Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir
Fréttastofa RÚV
dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir