Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Telur náttúrupassa vera sanngjarna leið

29.11.2014 - 18:14
Mynd með færslu
 Mynd:
Ráðherra ferðamála segir náttúrupassann sanngjarna leið til gjaldtöku í ferðaþjónustu. Með náttúrupassa komi hlutfallslega stærstur hluti fjármuna frá erlendum ferðamönnum, ólíkt öðrum leiðum sem nefndar hafa verið. Gert er ráð fyrir að passinn skili yfir fjórum milljörðum á þremur árum.

Ragnheiður Elín Árnadóttir hefur lokið við frumvarp um gjaldtöku í ferðaþjónustu með náttúrupassa. Sú leið til fjármögnunar hefur verið gagnrýnd, meðal annars af Samtökum ferðaþjónustunnar, sem telja að gjaldtakan og eftirlit með henni skerði upplifun ferðamanna á íslenskri náttúru. „Ég er ósammála samtökunum í því að þetta þurfi að skaða ásýnd landsins. Þvert á móti erum við að gera þetta til að tryggja sem ótakmarkaðastan aðgang ferðamanna að sem flestum stöðum,“ segir Ragnheiður Elín.

„Í útreikningum okkar kemur í ljós að með náttúrupassanum eru tekjurnar sem verða til að koma í 85-90% tilfella frá erlenda ferðamanninum,“ segir Ragnheiður Elín. Ef tekið yrði gistináttagjald eða komu- og brottfarargjald kæmi um 60% tekna frá erlendum ferðamönnum. „Mér finnst það líka ákveðin sanngirnisrök í málinu, að þarna erum við að ná meiri tekjum af erlenda ferðamanninum heldur en við höfum áður gert.“

Skattar á ferðaþjónustu hækka

Skattar á ferðaþjónustu verða hækkaðir samkvæmt fjárlagafrumvarpi, en Ragnheiði hugnast illa að leggja viðbótargjald á einn hluta ferðaþjónustunnar, líkt og Samtök ferðaþjónustunnar hafa lagt til. „Það sem mér finnst neikvætt við hugmyndir Samtaka ferðaþjónustunnar, er að þá er verið að skattleggja gistinguna eina og sér og aðrir þeir sem eru í ferðaþjónustunni þeir „sleppa“ má segja. Mér finnst, og það er markmiðið með þessu að þetta sé sameiginlegt verkefni, og við erum að tryggja stöðuga og trausta fjármögnun til þess að geta verndað náttúruna og byggt upp á þessum ferðamannastöðum.“

Ekki hægt að banna gjaldtöku einkaaðila

Umdeilt var þegar landeigendur við Geysi og Reykjahlíð hófu gjaldtöku á svæðin á þessu ári. Með frumvarpinu er slík innheimta einkaaðila ekki bönnuð, en reynt að gera eftirsóknarvert fyrir þá að taka þátt í náttúrupassanum. „Þeir sem að kjósa að standa fyrir utan og rukka sjálfir þeir eiga ekki rétt á að fá úthlutað úr framkvæmdasjóð ferðamannastaða, þeir sem eru aðilar að náttúrupassa hins vegar, þeir fá úthlutað án þess að þurfa að leggja fram mótframlag, eins og er í dag.“

Deilur um eignar og almannarétt verði að leysa fyrir dómstólum, ekki með lagasetningu ráðherra.  

Frumvarpið var samþykkt í ríkisstjórn í gær. En þingflokksformaður Framsóknarflokksins segir skiptar skoðanir um málið innan þingflokksins, sem þó eigi eftir að fá formlega kynningu á frumvarpinu. 

[email protected]