Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Telur mótvægisaðgerðir á þokkalegu róli

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, um brottkast og endurvigtunarkerfið.
 Mynd: RÚV
Landbúnaðarráðherra segir að það sé rangt, sem haldið hefur verið fram að ekki hafi verið ráðist í mótvægisaðgerðir vegna tollasamnings Íslands við Evrópusambandið. Samningurinn tók gildi í gær.

Formaður Bændasamtakanna gagnrýndi landbúnaðarráðherra í hádegisfréttum í gær og sagði út í hött að ekki hafi verið ráðist í mótvægisaðgerðir gegn tollasamkomulagi Íslands og Evrópusambandsins sem tók gildi í gær.

Frekari aðgerðir á leiðinni

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, segir að þegar hafi verið farið í ákveðnar mótvægisaðgerðir, þó enn sé unnið að fleirum.

„Það er nú leiðinlegt að heyra þetta svona frá formanni Bændasamtakanna, þar sem hann fullyrðir að ekkert hafi verið gert, enda beinlínis rangt. Þetta voru tillögur, ef ég man rétt, í átta liðum. Sumar eru komnar á veg á meðan aðrar eru ekki. Bara eins og gengur,“ segir hann.

„En ég vil nefna það hér í þessu sambandi að samningur um tollkvótanna eru áritaðir í september 2015 og þá voru tveir af rúmlega 40 fundum um búvörusamningana hafnir þannig að Bændasamtökin vissu nákvæmlega að hverju þeir voru að ganga fram í tímann varðandi tollasamninga þegar samningar um búvörusamningana voru gerðir.“

Hefur áhrif á hundruð matvörutegunda

Tollasamningurinn felur í sér lækkun eða afnám tolla á hundruð matvörutegunda frá ríkjum Evrópusambandsins. Bændur hafa gagnrýnt samkomulagið og vilja að ríkið bregðist við áhrif þess að þá. Kristján segist sýna óþolinmæði bænda skilning.

„Þær eru misdrjúgar að innihaldi þessar mótvægisaðgerðir, en sumar þeirra eru komnar eins og ég segi, aðrar hafa ekki náð fram að ganga og það er verið að vinna í öðrum. Ég tel að þetta sé á svona þokkalegu róli en eðlilega skil ég óþolinmæði manna gagnvart sumu af þessu, að það sé ekki komið fram.  Það er hins vegar ekki rétt að ekkert hafi verið gert, það er rangt,“ segir ráðherrann.

Tekur undir sjónarmið bænda

En er ekki ljóst að ef samningarnir eigi ekki að hafa neikvæð áhrif á störf bænda hér á landi, að þá þurfi að grípa til enn frekari aðgerða en nú hefur verið gert?

„Að sumu leyti er hægt að taka undir það sjónarmið en búvörusamningarnir setja bæði stjórnvöldum og bændum ramma til að starfa innan og ábyrgð bændasamtakanna eru ekki minni í þeim efnum en stjórnvalda. Þetta eru samningar tveggja frjálsra aðila og við verðum að vinna á þeim grunni sem þar er dreginn,“ segir hann.

adalsteinnk's picture
Aðalsteinn Kjartansson
Fréttastofa RÚV