Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Telur loftmengun bana 7 milljónum á ári

23.01.2018 - 11:45
epa04504688 A traffic police officer standing on an expressway is barely visible due to high pollution levels, in Hebei province, China, 26 November 2014. Pollution levels in Baoding township surpassed 700 on the PM2.5 Air Quality Index (AQI), well above
 Mynd: EPA
Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin (WHO) skilgreinir loftmengun sem eitt helsta umhverfisvandamál nútímans og telur stofnunin að rekja megi allt að sjö milljónir dauðsfalla á ári til loftmengunar. Talið er að flest þeirra orsakist af fínu svifryki.

Fjallað er um málið á Vísindavef Háskóla Íslands þar sem spurningunni um áhrif svifryks á heilsu fólks er svarað. Þar kemur meðal annars fram að stærri agnir svifryks síist út í nefi og nefholi, en smærri agnir nái niður í lungnaberkjurnar og allra smæstu agnirnar komist niður í lungnablöðrurnar og þaðan í blóðrásarkerfið. Magn agna í öndunarfærum barna geti verið tvisvar til fjórum sinnum meira en hjá fullorðnum einstaklingum og að börn séu einnig sérlega útsett fyrir neikvæðum heilsufarsáhrifum loftmengunar. Rannsóknir hafi einnig sýnt að gróft svifryk geti haft jafn mikil áhrif á dánartíðni og fínt svifryk. Talið sé að svifryksmengun geti stytt ævina að meðaltali um níu mánuði hjá fólki í Evrópu.

Í greininni segir að áhrif svifryks á heilsu séu margvísleg og vel staðfest. Áhrifanna gæti bæði vegna skammtíma útsetningar, sem mæld sé í klukkustundum og dögum og einnig langtíma sem mæld sé í mánuðum og árum. Helstu sjúkdómar sem svifryksmengun hefur verið tengd við eru öndunarfærasjúkdrómar og hjarta- og æðasjúkdómar. Heilsufarsbrestir komi fram sem versnandi einkenni sjúkdómanna sem sjáist í fleiri innlagningum á sjúkrahús, auk hærri dánartíðni af sömu orsökum. 

Þessu til viðbótar getur mikil svifryksmengun valdið heilablóðföllum, hjartaáföllum, hjartsláttartruflunum, hærri blóðþrýstingi hjá fólki yngra en 55 ára og skyndidauða. Þá hafi verið sýnt fram á að svifryksmengun geti dregið úr lungnaþroska barna og hefur hún einnig verið tengd vð hærri dánartíðni vegna lungnakrabbameins.

Samkvæmt Vísindavefnum er talið að smæstu agnirnar, sem ná niður í lungnablöðrur og i blóðið, geti borist til heilans og valdið þar bólgum sem tengdar eru við elliglöp og Alzheimersjúkdóminn. Örfínar agnir eru taldar geta komist í gegnum frumuveggi, safnast fyrir í heila og geti haft áhrif á þroska barna og einnig farið í gegnum fylgjuna og borist í fóstur.  Einnig aukist líkurnar á að börn fæðist of snemma eða séu léttari ef mæður þeirra hafa verið útsettar fyrir loftmengun á meðgöngunni. Því til viðbótar er tali að fínt svifryk geti haft áhrif á gæði sáðfruma. 

Rannsóknir á áhrifum svifryks á heilsu á Íslandi eru enn sem komið er fáar, að því er fram kemur á Vísindavefnum, en benda engu að síður til sambærilegra heilsufarsáhrifa. Í rannsókn frá árinu 2012 megi sjá samband milli svifryksmengunar í Reykjavík og aukinnar úttektar á astmalyfjum.

 

 

 

 

 

 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV