Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Telur litlar líkur á gosi í Bárðarbungu

27.11.2014 - 22:28
Mynd með færslu
 Mynd:
Mynd:  / 
Askjan í Bárðarbungu hefur nú sigið um 50 metra frá því eldsumbrot á svæðinu hófust. Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur telur litlar líkur á gosi í Bárðarbungu.

Vísindamenn frá Jarðvísindastofnun Háskóla Íslands flugu yfir Bárðarbungu í gær með tækjabúnað sem mælir hversu mikið ísinn yfir öskju Bárðarbungu hefur sigið. Samkvæmt nýjustu mælingum hefur askjan nú sigið um 50 metra. Líklegast er talið að gosið í Holuhrauni haldi áfram. 
„Já við verðum að telja það líklegt og niðurstöðurnar í dag sem við fengum úr fluginu í gær og þær eru að segja okkur að við erum ekki að sjá neinn endi á þessu. Þetta er allt mjög svipað,“ segir Magnús Tumi. 

Annar möguleiki sé að gossprungan færi sig undir jökulinn en það er ekki eins líklegt, segir Magnús. „Síðan er þriðji möguleikinn og það er að það komi upp gos í  Bárðarbungu sjálfri og hann verður að teljast ólíklegastur af þessu.“

Um 130 rúmmetrar af kviku streyma undan Bárðarbungu á hverri sekúndu og koma upp í Holuhrauni. Nýlegar mælingar benda til þess að kvikan undir Bárðarbungu nái upp á tveggja til þriggja kílómetra dýpi. „Hins vegar sýna niðurstöður bergfræðiathugana á kvikunni ótvírætt að hún hefur ekki komið upp á minna dýpi en 9 kílómetrum.“ Það bendi til þess að kvikukerfið undir Bárðarbungu sé ekki bara eitt einfalt hólf ofarlega í jarðskorpunni heldur nokkur. „Eða það sé töluvert hátt, nokkrir kílómetrar á hæð og kvikan sé að koma neðst úr því og sú kvika sem sitji efst, hún sé þá ekki á ferðinni hún sigur bara niður.“