Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Telur líklegt að ekki verði af sjúkrahúsi

27.04.2017 - 20:02
Mynd með færslu
 Mynd: Google earth
Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri í Mosfellsbæ, telur ólíklegt að það verði af byggingu á einkasjúkrahúsi í sveitarfélaginu. Hann átti fund fyrir nokkrum mánuðum með forsvarsmönnum MCPB ehf sem hafa haft hug á sjúkrahúsrekstri í sveitarfélaginu. „[Henri Middeldorp, framkvæmdastjóri MCPB ehf,] sagðist þá vera að undirbúa verkefnið. Ég hef ekki heyrt í honum síðan og finnst líklegra en hitt að af þessu verði ekki.“

Forsvarsmenn verkefnisins þurfi að hafa náð að uppfylla ákveðin skilyrði fyrir fyrsta desember til þess að fá lóð í bænum.  „Lóðinni var úthlutað fyrir rúmu hálfu ári. Lóðarúthlutunin var með ákveðnum skilyrðum sem þarf að uppfylla til þess að viðkomandi fái lóðina til frambúðar.“ Náist ekki að uppfylla skilyrðin falli lóðaleigusamningurinn úr gildi. 

Skilyrðin lúta að viðskiptaáætlun sem félagið verði að leggja fram auk upplýsinga um fjármögnun og tímaáætlanir. Þá þurfi að hefja framkvæmdir innan tveggja ára frá undirritun samnings, segir í tilkynningu á vef Mosfellsbæjar í ágúst í fyrra. 

Sigrún Pálsdóttir, bæjarfulltrúi Íbúahreyfingarinnar, spurðist fyrir um sjúkrahúsið á fundi bæjarráðs í dag. „Ég setti þetta á dagskrá til að fá upplýsingar um hvar málið er statt,“ segir Sigrún. Mikilvægt  sé að íbúar Mosfellsbæjar fái að fylgjast með gangi verkefnisins, sem snúist um 50 milljarða króna fjárfestingu á 120 þúsund fermetra lóð í eigu sveitarfélagsins. „Þarna er um mikil verðmæti að tefla og við í Íbúahreyfingunni teljum að íbúar eigi að vera upplýstir um framgang svona mála. Þessvegna settum við þetta á dagskrá.“  

Sigrún segist ekki hafa fengið svör við spurningum sínum um hvort enn væri alvara á bakvið verkefnið. Hún telji að umræðan í kringum Klíníkina í Ármúla og ummæli Óttarrs Proppé heilbrigðisráðherra og Birgis Jakobsson landlæknis einnig hafa sett spurningamerki um framhaldið. „Það var ein af spurningum mínum; hvort að þessar yfirlýsingar myndu hafa einhver áhrif á framtíðarmöguleika þessa verkefnis. Heilbrigðisráðherra og landlæknir hafa báðir tjáð sig mjög neikvætt um einkarekstur og beinlínis talað um að áframhaldandi einkavæðing myndi kippa stoðum undan uppbyggingu ríkissjúkrahúss.“ 

Haraldur segir hugmyndina um sjúkrahúsið í Mosfellsbæ og starfsemi Klíníkurinnar í Ármúla vera tvennt ólíkt. „Verkefnið gekk út á starfsemi fyrir hjartaaðgerðir og liðskiptaaðgerðir fyrir útlendinga en ekki Íslendinga. Klíníkin vill leyfi fyrir íslenska sjúklinga.“

Sigrún segir að fundargerð bæjarráðs verði til umræðu á næsta bæjarstjórnarfundi á miðvikudag. „Ég geri ráð fyrir að málið fái þar áframhaldandi umræðu,“ segir hún og bendir á að sent sé út frá fundum bæjarstjórnar á YouTube auk þess sem fundir bæjarstjórnar séu öllum opnir.