Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Telur líklegast að jarðskjálftahrinan fjari út

03.04.2019 - 13:28
Mynd með færslu
Kópasker. Mynd: Frank Bradford Mynd:
Þó verulega hafi dregið úr jarðskjáftahrinunni í nágrenni Kópaskers, stendur hún enn. Um 80 skjálftar hafa mælst það sem af er degi, sá stærsti 2,5 að stærð. Óvissustig, sem lýst var 28. mars, er enn í gildi.

Eftir fremur rólega nótt, kom talsverð hrina milli klukkan hálf sex og hálf sjö í morgun. Það eru merki þess að skjálftahrinan er enn í gangi, að sögn Sigþrúðar Ármannsdóttur, náttúruvársérfræðings hjá Veðurstofunni.

„Það hafa mælst um 80 skjálftar það sem af er degi. Stærsti skjálfinn í dag mældist 2,5, yfirfarinn. Hann kom í gusunni milli hálf sex og hálf sjö. Hrinan er því enn í gangi þó dregið hafi úr henni. Þetta er ekki búið,“ segir Sigþrúður.

Hún segir að þó farið sé að draga smátt og smátt úr virkninni, sé það þekkt annarsstaðar að hrinur taki sig upp aftur. „Það er allt til í þessu,“ segir hún. „Líklegasta sviðsmyndin er að þetta fjari út, en það getur hinsvegar enginn sagt til með vissu.“