Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Telur flugæfingar verða óþægilegar fyrir íbúa

26.07.2018 - 17:07
epa04906359 A US Air Force jet-fighter F-22 Raptor aircraft in the sky at the 32 Tactical Air Base in Lask, Poland, 31 August 2015. Two US Airforce Lockheed Martin F-22 Raptor stealth tactical fighter aircrafts will take part in exercises with the new
 Mynd: EPA - PAP
Guttormur Þorsteinsson, formaður Samtaka hernaðarandstæðinga, segir fyrirhugaða loftrýmisgæslu Atlantshafsbandalagsins við Ísland „ekkert nema flugæfingar fyrir heri Nató-ríkja og gjörsamlega óviðkomandi öryggi landsins.“ Aðflugsæfingar á Akureyri og Egilstöðum muni hafa „mikil óþægindi í för með sér fyrir íbúa“ og að hættan á slysum sé alltaf til staðar.

Guttormur telur hæpið að „bandarískar herflugvélar og varnarsamningur séu trygging fyrir einhverju öðru en hernaðarlegum hagsmunum Bandaríkjanna í tíð núverandi forseta.“

300 liðsmenn bandaríska flughersins koma senn til landsins ásamt 15 F-15 orrustuþotum til að taka þátt í loftrýmisgæslu Atlantshafsbandalagsins við Ísland. Til viðbótar koma starfsmenn frá stjórnstöð Nató í Uedem í Þýskalandi. Flugsveitin verður með bækistöð á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Samkvæmt tilkynningu má gera ráð fyrir aðflugsæfingum að varaflugvöllum á Akureyri og Egilsstöðum frá 31. júlí til 8. ágúst. Ráðgert er að verkefninu ljúki í lok ágúst. 

Verkefnið verður með sama fyrirkomulagi og fyrri ár og í samræmi við loftrýmisgæsluáætlun Nató fyrir Ísland. Landhelgisgæsla Íslands stýrir verkefninu í samvinnu við Isavia.