Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Telur ekki rétt að skilyrða námslán

02.12.2013 - 17:07
Mynd með færslu
 Mynd:
Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra, telur ekki rétt að skilyrða lán þeirra sem stunda nám í útlöndum en snúa ekki aftur til Íslands að því loknu. Um 35 prósent lána hjá Lánasjóði íslenskra námsmanna er vegna náms í útlöndum eða um 5,7 milljarðar.

Þetta kemur fram í svari Illuga við fyrirspurn Vigdísar Hauksdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins, sem spurði menntamálaráðherra hvort hann teldi rétt að skilyrða þessi lán með því að hækka vexti til samræmis við markaðsvexti snéru námsmenn ekki heim að loknu námi.

Illugi segir nokkur veigamikil rök liggja fyrir afstöðu sinni. LÍN eigi að tryggja tækifæri til náms án tillits til efnahags og þá hafi það verið stefna stjórnvalda að gera ekki greinarmun á því hvar nemendur mennta sig.

Illugi nefnir einnig að námsmenn geti þurft að leita erlendis eftir námi sem ekki sé í boði hér á landi . Hann nefnir dýralækningar og veðurfræði sérstaklega í svari sínu. Erfitt gæti reynst að mennta fólk í þeim greinum ef búseta að loknu námi yrði tengd við endurgreiðslu.

Þá geti fjölskylduaðstæður námsmanna breyst á meðan dvöl þeirra stendur erlendis - þeir gætu mögulega stofnað þar fjölskyldu. Illugi bendir enn fremur á í svari sínu að viðtökuríki innan EES - nema Bretland - beri stóran hluta af kostnaði við menntun þessara nema þar sem skólagjöld eru að jafnaði ekki til staðar.

Í svari Illuga kemur auk þess fram að heildarútlán LÍN skólaárið 2011 til 2012 hafi verið 16,3 milljarðar. Framlag ríkisins var um 8 milljarðar eða 49 prósent af heildarútlánum. Framlag ríkisins til námsmanna erlendis hafi því verið um 2,8 milljarðar.

Vigdís spurði menntamálaráðherra einnig um þá íslensku ríkisborgara sem stunda nám í læknisfræði í útlöndum. 16 eru í Danmörku, 42 í Slóvakíu og 87 í Ungverjalandi en alls eru 150 Íslendingar í læknisfræði í útlöndum - þar af einn í læknavísindum í Tælandi.  

[email protected]