Telur ekki ástæðu til að hætta þingmennsku

30.11.2018 - 12:28
Mynd með færslu
 Mynd:
Ólafur Ísleifsson, þingflokksformaður Flokks fólksins, telur ekki tilefni til þess að hann segi af sér þingmennsku vegna þess sem fram kom á upptökunum á Klaustur bar. Hann hafi ekki sagt þar nokkuð sem særi eða meiði. Hann segir að fyrirhugaður fundur stjórnar flokksins í dag sé ekki ályktunarbær sökum þess að ekki var boðað til hans með lögmætum fyrirvara.

Á stjórnarfundi hjá Flokki fólksins í gærkvöld var samþykkt tillaga um að þingmennirnir Ólafur Ísleifsson og Karl Gauti Hjaltason eigi að segja af sér þingmennsku. Kolbrún Baldursdóttir borgarfulltrúi flokksins sagði í samtali við fréttastofu í gær að niðurstaðan var einróma enda málið grafalvarlegt og mikill trúnaðarbrestur.  

Ólafur var á fundi fjárlaganefndar þegar fréttastofa náði tali af honum fyrir hádegi og spurði hann út í hvað hann hyggist gera. „Bara halda markaðri stefnu, halda utan um þingflokkinn eins og hægt er. Hann þarf að vera starfhæfur og öflugur í þágu þeirra málefna sem við vorum kosin til að sinna og þeirra málefna sem við höfum lagt fram.“

Hefurðu íhugað að segja af þér þingmennsku? „Ég held að það hljóti nú allir að hugsa ýmislegt við svona aðstæður en ég sé nú  engar efnislegar forsendur fyrir slíkri ákvörðun.“

En að segja þig úr Flokki fólksins? „Nei, nei nei nei. Það er ekkert tilefni til þess af minni hálfu.“ 

Stjórn Flokks fólksins kemur saman eftir hádegi. Telurðu að þar verði eitthvað ákveðið frekar um ykkar stöðu, þína og Karls Gauta? „Ég held að það sé ágætt að fólk hittist en mér sýnist að slíkur fundur geti varla verið ályktunarbær, eins og það heitir, vegna þess að það er ekki boðað til hans með þeim fyrirvara sem kveðið er á um í samþykktum flokksins.“