Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Telur buffalóosta ekki forgangsmál

06.02.2014 - 12:20
Mynd með færslu
 Mynd:
Varaformaður atvinnuveganefndar segir sjálfsagt að taka upp erindi Haga um niðurfellingu innflutningstolla á sérostum. Innkaupastjóri Krónunnar og Nóatúns segir rétt að innlend framleiðsla anni ekki eftirspurn. Hann segir ekki þó ekki forgangsmál fyrir neytendur að fá ódýra osta úr bufflamjólk.

Finnur Árnason, forstjóri Haga, ætlar í hart við stjórnvöld ef tollar verða ekki felldir niður á osti úr sauða-, geita og bufflamjólk. Fram kom í fréttum RÚV í gær að Hagar hafa sótt um það til atvinnuvegaráðuneytisins að fá að flytja inn ostinn án tolla, á þeim forsendum að innlend framleiðsla anni ekki eftirspurn.

Eftirspurnin kannski ekki mikil
Sólmundur Oddsson, innkaupastjóri Krónunnar og Nóatúns, tekur undir það. Innflutningstollar á sérostum sé eitt af þeim málum sem Kaupás, eigandi búðanna, sé að skoða. „Síðan er það annað mál að eftirspurn af slíkum ostum er nú kannski ekkert gríðarleg miðað við það sem gengur og gerist í þessum geira. En ég get ekki séð af hverju það eigi að vera að hamla innflutning af þessari vöru og ég get ekki séð hvað er verið að verja eiginlega.“ segir Sólmundur.

Ættum að gera gagnkvæma samninga
Haraldur Benediktsson, annar varaformaður atvinnuveganefndar Alþingis og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir vert að skoða erindi Haga. „Það er kallað eftir sérostum, ég verð var við það. Það þarf líka að skoða þetta út frá því ljósi að þetta eru búvöruviðskipti og þau eru sérstök að ákveðnu leyti og ég vil þá að við skoðum möguleika hér á landi að sækja inn á aðra markaði, því einhliða opnun, hvort sem það er í sérostum eða öðrum vöruflokkum búvörunnar, ætti ekki að vera, það ættu að vera gagnkvæmir samningar um það.“ Haraldur segir að hafa beri í huga að beiðni Haga sé ákveðin aðferð fyrirtækisins til að vekja athygli á baráttu þess gegn ríkjandi landbúnaðarkerfi. „Hún slær mig líka svolítið þannig að ég vissi ekki að það væri forgangsmál fyrir íslenska neytendur að fá buffalóosta.“