Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Telur bannið skekkja samkeppni

02.06.2013 - 12:35
Mynd með færslu
 Mynd:
Lögfræðingur Samtaka verslunar og þjónustu telur að bann stjórnvalda við innflutningi á hráu kjöti skekki verulega samkeppni á evrópska efnahagssvæðinu. Hann telur stjórnvöld ýkja hættu við innflutning á kjöti í nýju svarbréfi til ESA.

Í fréttum RÚV í gærkvöldi kom fram að íslensk stjórnvöld þvertaka fyrir að heimila innflutning á fersku kjöti frá ríkjum Evrópusambandsins þótt Eftirlitsstofnun EFTA og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins telji Ísland brjóta lög og reglugerðir með banninu. Stjórnvöld nota meðal annars þau rök í bréfi til ESA að innflutningur auki hættu á dýrasjúkdómum.

Matvælafrumvarpið svokallaða var samþykkt af Alþingi í árslok 2009. Ákvæði um að heimila innflutning á fersku kjöti frá ríkjum ESB var fellt út á síðustu metrunum. Samtök verslunar og þjónustu sendu kvörtun vegna þess til ESA í árslok 2011.

Lárus M.K. Ólafsson er lögfræðingur samtakanna sem telja bannið brjóta gegn fjórfrelsi EES-samningsins. 

„Við teljum að þessi rök eigi ekki við. Við sækjum meðal annars okkar stoð í umsögn fyrrverandi yfirdýralæknis sem telur að þessi hætta sé ekki eins mikil og lagt er upp með í bréfinu. Við erum sannarlega enn á þeirri skoðun að þetta skekki verulega samkeppni á evrópska efnahagssvæðinu".