Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Telur að nýnasistar muni hampa Íslandi

21.03.2018 - 07:42
White nationalist demonstrators clash with counter demonstrators at the entrance to Lee Park in Charlottesville, Va., Saturday, Aug. 12, 2017.  Gov. Terry McAuliffe declared a state of emergency and police dressed in riot gear ordered people to disperse
Frá átökunum í Charlottesville Mynd: AP
Jonathan Greenblatt, forstöðumaður Anti-Defamation League, varar allsherjar - og menntamálanefnd við áhrifum þess að Alþingi samþykki bann við umskurði drengja. Greenblatt telur meðal annars hættu á því að hvítir þjóðernissinnaðir öfgamenn og nýnasistar muni fagna löggjöfinni sem þeirri fyrstu í Evrópu síðan í seinni heimsstyrjöldinni þar sem land reynir að verða „Judenrein“ eða laust við gyðinga.

Þetta kemur fram í umsögn Greenblatts við frumvarp Silju Daggar Gunnarsdóttur og átta annarra þingmanna þar sem lagt er til að refsivert verði að umskera drengi. Frumvarpið hefur verið gagnrýnt, meðal annars af embætti Landlæknis en líka biskupi Íslands og biskupi kaþólsku kirkjunnar.

ADL nýtur nokkurrar virðingar vestanhafs. Til að mynda hafa all flestir bandarískir fjölmiðlar fjallað um nýlega rannsókn stofnunarinnar þar sem greint er frá vaxandi gyðingaandúð í Bandaríkjunum. 

Í umsögn sinni segir Greenblatt að bann við umskurði myndi þýða að engin gyðingafjölskylda gæti sest að hér, frumvarpið gangi gegn trúfrelsi og það sé móðgun bæði við gyðinga og múslima.   

Greenblatt ábyrgist að verði frumvarpið samþykkt þýði það að Íslandi verði hampað af hvítum öfgamönnum og nýnasistum. „Jafnvel þótt gyðingahatur hafi augljóslega ekki verið rótin að þessu frumvarpi mun það leiða til þess að Ísland verður dásamað af ofstækismönnum,“ skrifar Greenblatt. Þeir muni fagna banninu sem fyrsta frumvarpinu, frá dögum seinna stríðs, þar sem land reynir að verða „Judenrein“ eða laust við gyðinga.

Greenblatt segir að ADL muni fylgjast grannt með hvernig umræða öfgamanna um Ísland þróast og fjalla um hana.  „Við hvetjum ykkur til að íhuga hversu mikla athygli skýrslur okkar um öfgahyggju hafa fengið. Síðasta hálfa árið hafa sérfræðingar okkar verið tíðir gestir á CNN, NBC og 60 minutues og birst hafa greinar í bæði New York Times og Washington Post.“ 

Og Greenblatt varar íslensk stjórnvöld við. 28 prósent ferðamanna á Íslandi komi frá Norður-Ameríku og það hljóti því að skipta máli hvaða augum Ísland sé litið þar. „Við erum sannfærðir um að stór hluti bandarískra ferðamanna muni sniðganga land sem tengt verður við nasisma, jafnvel þótt slík hugrenningatengsl séu ekki sanngjörn.“