Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Telur að hvalurinn sé blendingur

12.07.2018 - 10:16
Mynd með færslu
 Mynd: Facebook/Hard To Port
„Mér sýnist af myndum að þarna sé um að ræða enn einn blendinginn milli steypireyðar og langreyðar, þá sjötta eða sjöunda tilfellið sem við þekkjum af slíku hér við land,“ segir Gísli Víkingsson, líffræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, um hval sem var landað í Hvalfirði um helgina.

Paul Watson hjá Sea Shepherd skrifaði öllum þingmönnum Alþingis bréf í gær þar sem hann heldur því fram að steypireyður í útrýmingarhættu hafi verið veidd hér á landi. Sömuleiðis hefur því verið haldið fram í erlendum miðlum. 

Gísli segir að hingað til hafi veiðar á slíkum blendingum verið tilkynntar til Alþjóðahvalveiðiráðsins og aldrei vakið sérstaka athygli hingað til. „Þess vegna finnst mér sérkennilegt núna öll þessi athygli sem þessi blendingur fær, ef þetta er blendingur, því að þetta hefur gerst oft áður og verið rapporterað og birt.“

Ekki sé óheimilt að veiða blendinga. „Það gilda engin lög um það. Þetta eru frávik í náttúrunni, kynblendingur milli tveggja tegunda. Hins vegar vil ég taka fram að ég get ekki ályktað um að þetta sé blendingur fyrr en að lokinni DNA-rannsókn,“ segir Gísli. Hafrannsóknastofnun greini DNA á hverjum lönduðum hval. „Síðan er hugsanlegt að það þurfi frekari rannsóknir til að vera alveg viss um endanlega niðurstöðu og þá verður það gert.“

Hann segir að af myndum að dæmi verði hins vegar að ekki annað séð en að hvalurinn sé blendingur. „Mér finnst þetta líkjast þessum blendingum sem við höfum greint og tilkynnt og þeir hafa verið afgreiddir í Alþjóðahvalveiðiráðinu í sérstakri nefnd sem fjallar um svona tilfelli. Það eru nokkur sambærileg tilfelli þar meðhöndluð á hverju ári frá þeim þjóðum sem veiða hval í dag, sem eru Bandaríkjamenn, Grænlendingar, Íslendingar, Rússar, Norðmenn og Japanir.“

Gísli segir ekki hægt að útiloka að hvalurinn sé steypireyður fyrr en að lokinni DNA-rannsókn. „Þá er það náttúrlega brot á reglum ráðsins. En hins vegar er það svo sem ekki einsdæmi innan ráðsins því að á undanförnum árum hafa komið upp sambærileg tilvik, þótt ekki hafi verið um steypireyði að ræða, það er að segja veiðar á tegund sem er friðuð.“

Ásrún Brynja Ingvarsdóttir
Fréttastofa RÚV
johann's picture
Jóhann Bjarni Kolbeinsson
Fréttastofa RÚV