Telur að Hallgrímur hafi verið ritskoðaður

Mynd með færslu
 Mynd:

Telur að Hallgrímur hafi verið ritskoðaður

12.04.2013 - 08:42
Gagnrýnandi danska blaðsins Information telur að bók Hallgríms Helgasonar, Konan við þúsund gráður, hafi verið ritskoðuð í Þýskalandi. Hann segir að um þrjátíu köflum bókarinnar hafi ýmist verið breytt eða sleppt til að móðga ekki Þjóðverja. Hallgrímur og þýskur útgefandi hans vísa þessu á bug.

Þetta kemur fram í ítarlegri frétt um málið á vef Information. Þar er fyrirsögnin „Stjörnurithöfundur ritskoðaður“. Konan við 1000 gráður þótti nokkuð umdeild þegar hún kom út hér á landi en aðalpersóna bókarinnar er byggð á ævi Brynhildar Georgíu Björnsson, sem var barnabarn Sveins Björnssonar, forseta. Bókin var tilnefnd fyrir hönd Íslands til Norrænu bókmenntaverðlaunanna 2013.

Erik Skyum-Nielsen, gagnrýnandi blaðsins og lektor í bókmenntafræði við háskólann í Kaupmannahöfn, segist hafa borið saman dönsku útgáfuna og þá þýsku. Hann hafi komist að þeirri niðurstöðu að um þrjátíu köflum hafi ýmist verið breytt eða sleppt. Þar séu fyrirferðamestir kaflar um Hitler, SS, fjöldagrafir, útrýmingabúðir og seinna stríð.  Skyum-Nielsen er mjög afdráttarlaus í skoðun sinni og það er  mat hans að bók Hallgríms hafi verið ritskoðuð af pólitískum ástæðum til að þóknast Þjóðverjum.

Hallgrímur vísar þessum ásökunum Skyum-Nielsen á bug.  Hann kveðst í samtali við Information hafa lent í tímahraki með bókina.  Hún hafi átt að koma út fyrst í Þýskalandi vegna bókamessunar í Frankfurt þar sem Ísland var heiðursgestur. Þýðandi bókarinnar hafi ekki getað byrjað á tiltsettum tíma, Hallgrímur hafi þar að auki ekki alveg verið búinn með bókina og því hafi hann allt í einu verið lentur undir mikilli tímapressu. 

Hallgrímur segir að þegar á hólminn hafi verið kominn hafi bókin reynst of löng, þýskir útgefendur óttuðust að hún yrði 800 síður. Þeir hafi lagt fram tillögur um hvaða köflum mætti sleppa og að endingu hafi það síðan verið þýsku útgefendurnir sem skáru bókina niður til að hún yrði örugglega tilbúinn fyrir bókamessuna.  „Þetta snérist að lokum um, hvort bókin kæmi út á tilsettum tíma eða ekki,“ segir Hallgrímur við Information en áréttar að þessi niðurskurður hafi ekki komið niður á heildarmynd hennar.

Hallgrímur kveðst ekki hafa verið sáttur með þessi vinnubrögð, hann hafi komið mótmælum sínum á framfæri en síðan sætt sig við þetta. Hallgrímur segist ekki hafa upplifað þetta sem ritskoðun heldur miklu frekar sem málamiðlun. „Það sem komst næst því að vera ritskoðun var kafli um Hitler sem þýsku útgefendurnir sögðu að yrði of erfiður fyrir Þjóðverja að lesa um. Ég þekki ekki þýska menningu nægjanlega vel til að geta lagt mat á hvað móðgar þá og hvað ekki.“

Tom Kraushaar, útgefandi Hallgríms í Þýskalandi, segir það af og frá að bókinni hafi verið breytt af pólitískum ástæðum, hún hafi verið of löng og þeiri hafi neyðst til að stytta bókina til að hún gæti komið út í tengslum við bókamessuna í Frankfurt. Þessar ákvarðanir hafi verið teknar í sátt og samlyndi.

Information rifjar upp að Hallgrímur hafi aftur á móti ekki verið reiðubúinn til að gera málamiðlun þegar dóttir Brynhildar Georgíu bað hann um að tóna niður einstaka kafla í bókinni. Hallgrímur segir að niðurskurðurinn í Þýskalandi hafi verið vegna tímapressu, óskir dóttur konnunar hafi snúist um mikilvæga þætti í efni bókarinnar. „Ég reyndi að skera burt fitu, ekki bein. Óskir hennar snérust um mjög afgerandi í þætti í efni bókarinnar,“ er haft eftir Hallgrími í Information.

Skyum-Nielsen kveðst þó ekki vera sáttur við þessar skýringar Hallgríms. Höfundurinn geti ekki beitt þeim rökum að hann þekki ekki þýska menningu þegar hann lýsi nasismanum á jafn kaldhæðin hátt og hann geri í bókinni. Skyum-Nielsen segir það því sína skoðun að bókinni hafi verið breytt til að þóknast Þjóðverjum. 

Að því er fram kemur í Information vonast Hallgrímur til að Konan við þúsund gráður verði gefin út í fullri lengd í Þýskalandi.