Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Telur að fresta þurfi framkvæmdum á vellinum

13.12.2018 - 21:55
Mynd með færslu
 Mynd: Eggert Þór Jónsson - RÚV
Það er ekki farið í jafn stórar niðurskurðaraðgerðir og uppsagnir og WOW air gerði í dag, nema fólk sjái til lands. Þetta segir ferðamálastjóri. Hann hefur ekki áhyggjur af fækkun ferðamanna en telur líklegt að fresta þurfi framkvæmdum á Keflavíkurflugvelli.

 

Skarphéðinn Berg Steinarsson, ferðamálastjóri, segir ljóst að samdráttur í flugframboði verði talsverður. „Það þýðir þá samdrátt væntanlega um 15 prósent í Keflavík, einhver er aukningin hjá Icelandair, vonandi hjá öðrum líka þannig það er spurning hver heildaráhrifin verða þegar upp er staðið.“

Fækkar um 1,5 milljónir

Skúli Mogensen, forstjóri Wow air áætlar að farþegum fækki töluvert, í ár hafi um 3,6 milljónir flogið með Wow en á næsta ári fækki farþegum um eina og hálfa milljón, þeir verði því 2,1 milljón. Ekki staldra allir við hér á landi og Skarphéðinn telur að hlutdeild skiptifarþega minnki. Þetta hafi neikvæð áhrif á heildartekjur flugvallarins. „Hljóti þannig að fresta áformum um uppbyggingu eða hversu hratt verður farið í hana.“

Óljóst með áhrifin - en uppbyggingu haldið áfram

Í svari Isavia við fyrirspurn fréttastofu um áhrif niðurskurðarins segir að ekki sé komið á hreint hvaða áhrif þær hafi á starfsemina. Aðgerð Wow hefði þó ekki áhrif á uppbyggingaráform Isavia til næstu ára, gerð tengibyggingar og breikkun landgangs. Undirbúningsvinna og hönnun haldi áfram og gert ráð fyrir að framkvæmdir hefjist næsta haust. Flugstöðin sé allt of lítil fyrir þá starfsemi sem fer þar fram óháð ákvörðunum sem Wow air kynnti í dag. 

Ekki farið í svona aðgerð nema menn sjái til lands

Skarphéðinn segir dapurlegt að komið hafi til uppsagna en að niðurskurðurinn dragi úr óvissunni. „Þó að það verði samdráttur er hann ekki meiri en það horfir til þess sem hann var árið 2016 og það voru nú ágætis umsvif þá, mörgum þótti nóg um.“

Telurðu að staða félagsins sé trygg núna?

Ég hef engar forsendurt il að meta það og áfram er óvissa á meðan það er verið að klára þetta allt saman en svona stór aðgerð, ég hef ekki trú á því að það sé farið í hana án þess að menn sjái til lands.“

Það sé ekki víst að það verði neinn teljandi samdráttur eða að farþegum fækki.