Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Teljari gaf sig í olíuskúrnum á Fáskrúðsfirði

20.08.2018 - 06:12
Mynd með færslu
 Mynd: Rúnar Snær Reynisson - RÚV
Bilun í teljara inni í olíudæluskúr á Fáskrúðsfirði leiddi til þess að um þúsund til 1.500 lítrar af olíu lentu í sjónum við höfnina þegar verið var að dæla olíu í uppsjávarskipið Hoffell SU-80. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Skeljungi.

Grétar Helgi Geirsson, formaður Björgunarsveitarinnar Geisla, segir tvennt hafa hjálpað til við hreinsunarstarf, annars vegar að strax hafi verið tilkynnt um slysið, og hins vegar að veður var með besta móti. Í fréttatilkynningu Skeljungs segir að bátar björgunarsveitarinnar hafi slætt olíuna af sjónum og safnað í flekk sem síðan var soginn upp með dælubíl. Þannig var fljótt náð tökum á útbreiðslu olíunnar og stjórn á ástandinu.

Samkvæmt fréttatilkynningunni verða aðstæður yfirfarnar á nýjan leik í dag. Athugað verður hvers vegna teljarinn gaf sig, og tekið er fram að Skeljungur noti hvergi annars staðar sams konar teljara.
 

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV