Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Telja ólíklegt að nýjar upplýsingar komi fram

01.03.2018 - 15:57
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Ólíklegt er að rannsókn á einkavæðingu bankanna myndi leiða eitthvað nýtt í ljós nema fram kæmu ný gögn eða að einhverjir þeirra sem tóku þátt í henni kæmu fram með nýjar upplýsingar. Þetta segja fyrrverandi nefndarmaður í rannsóknarnefnd Alþingis um fall bankanna og fyrrverandi starfsmaður þeirrar nefndar og rannsóknarnefndarinnar sem rannsakaði aðkomu þýska bankans Hauck & Aufhäuser að kaupum S-hópsins á Búnaðarbankanum. Þeir leggja þó áherslu á að slíkt sé ekki hægt að útiloka.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis bíður það verkefni að meta hvort fara eigi fram rannsókn á einkavæðingu bankanna í kringum síðustu aldamót, eins og kveðið var á um í þingsályktunartillögu sem Alþingi samþykkti árið 2012. Þegar Alþingi samþykkti árið 2016 rannsókn á aðkomu þýska bankans að Búnaðarbankasölunni var ákveðið að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd myndi meðal annars á grundvelli hennar ákveða hvort ástæða væri til að láta verða af rannsókninni sem Alþingi samþykkti 2012.

Lengi hafði verið gagnrýnt að ekkert yrði af rannsókn á einkavæðingu bankanna þrátt fyrir samþykkt Alþingis. Það skýrðist meðal annars af því að þingmenn vildu meta reynsluna af þremur fyrstu rannsóknarnefndunum þar sem kostnaður við þær gat hlaupið á hundruðum milljóna króna.

Mynd með færslu
 Mynd: Haukur Holm - RÚV

Þingnefnd óskaði upplýsinga vegna rannsóknar

Skýrsla rannsóknarnefndarinnar sem komst að því að þýski bankinn átti aldrei hlut í Búnaðarbankanum, þvert á það sem Ólafur Ólafsson og aðrir forsvarsmenn S-hópsins héldu fram á sínum tíma, vakti mikla athygli þegar hún var kynnt í fyrra. Kjartan Bjarni Björgvinsson, sem stýrði rannsókninni, og Finnur Þór Vilhjálmsson, starfsmaður rannsóknarnefndarinnar, fóru á fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis og kynntu niðurstöðurnar. Í framhaldi af því bað stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Tryggva Gunnarsson, umboðsmann Alþingis og nefndarmann í upphaflegu rannsóknarnefnd Alþingis, að taka saman hvað væri komið fram af því sem Alþingi samþykkti að rannsaka og hvort líkur væru á að frekari svör fengjust. Hann fékk Finn Þór til að vinna verkefnið með sér og fara yfir fyrirliggjandi skýrslur. 

Báðir lýsa þeirri skoðun að miklu af því sem á að rannsaka hafi þegar verið svarað. Einnig að erfitt geti verið að leiða fram nýjar upplýsingar þó slíkt sé ekki útilokað.

Mynd með færslu
Tryggvi Gunnarsson umboðsmaður Alþingis. Mynd: RÚV

Meðferð þingsins tafist vegna stjórnarslita og kosninga

Tryggvi og Finnur skiluðu stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd minnisblaði og samantekt í september síðastliðnum. Nefndinni hefur þó ekki gefist tóm til að taka afstöðu til skýrslu rannsóknarnefndar um Búnaðarbankans vegna stjórnarslita í fyrra, kosninga og skipunar nýrrar nefndar. Fyrr á þessu ári var þó skipuð ný undirnefnd stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis til að fara skýrslu rannsóknarnefndarinnar og önnur gögn sem málinu tengjast, þar á meðal minnisblað Tryggva og samantekt Finns. 

Tryggvi segir í minnisblaði sínu að eftir athugun upphaflegu rannsóknarnefndar Alþingis á einkavæðingu bankanna hafi hann talið að ekki yrði lengra komist við að upplýsa þau mál nema annað tveggja kæmi til: nýjar upplýsingar um þátttöku Hauck & Aufhäuser í kaupunum á Búnaðarbankanum eða þá að þeir sem tóku þátt í samtölum eða fundum vegna þessara viðskipta veittu nýjar upplýsingar um efni þeirra. 

Tryggvi rifjar upp að nýjar upplýsingar hafi einmitt orðið grundvöllur þess að ráðist var í rannsókn á kaupunum á Búnaðarbanka, sem leiddi í ljós að þýski bankinn var aldrei hluthafi. 

Litlar líkur miðað við fyrri leit

„Miðað við þá leit sem þegar hefur verið gerð að gögnum og skriflegum upplýsingum um þessi mál verður að telja frekar litlar líkur á að finna megi ný gögn sem veita upplýsingar um þau atriði sem rannsóknarspurningarnar fjalla um og þegar hafa ekki verið upplýst,“ segir Tryggvi í minnisblaði sínu. Hann segir þó ekki hægt að fullyrða að ekkert nýtt geti komið fram með þessum hætti, einkum með því að einstaklingar veiti upplýsingar um það sem fram fór.

Meðal þess sem kveðið er á um í þingsályktuninni um rannsókn á einkavæðingu bankanna er samanburður við sölu fjármálafyrirtækja erlendis og tillögur til úrbóta um sölu á eignarhlutum ríkisins í framtíðinni. 

Tryggvi segir í minnisblaði sínu að sala fjármálafyrirtækja í nágrannalöndum séu almennt atviksbundnar og taki mið af aðstæðum sem þá voru uppi á hverjum stað. Þar spili líka inn í misjafnar hefðir í lagasetningu og verkaskiptingu milli þings og stjórnsýslu. Þó hafi gagnrýni á einkavæðingu erlendis að ýmsu leyti verið um áþekk atriði og hérlendis, nefnilega um að skort hafi á pólitíska stefnumörkum í formi lagasetningar, skilyrðu um kaupeldur og eignarhluta, verðmat og mat tilboða. Ef þetta á að nýtast þingmönnum öðruvísi en sem sögulegur fróðleikur þurfi að draga lærdóm af þessu með tillliti til stefnumörkunar og lagasetningar. Auk þessa þurfi að hafa í huga að verulegar breytingar hafi orðið á lagaumhverfi fjármálamarkaða á allra síðustu árum. 

Mynd með færslu
 Mynd: Landsbankinn Landsbankinn

Ítarleg umfjöllun í fyrri skýrslum

Í samantekt sinni fór Finnur yfir rannsóknarspurningar sem fylgdu þingsályktunartillögunni um rannsókn á einkavæðingu bankanna og ber saman við skýrslur rannsóknarnefndanna um fall bankanna og aðkomu Hauck & Aufhäuser að kaupunum á Búnaðarbankanum. Hann bendir á að ítarlega umfjöllun um mörg rannsóknarefnanna sé að finna í skýrslum rannsóknarnefndanna, ekki síst upphaflegu rannsóknarnefndarinnar. „Benda verður á að þessi umfjöllun nefndarinnar og ályktanir hennar varða með einum eða öðrum hætti margar helstu rannsóknarspurningar sem ályktunin gerir ráð fyrir,“ segir Finnur í samantektinni. 

Við yfirferðina rekur Finnur að mörgum rannsóknarspurninganna hafi þegar verið svarað, annað hvort í skýrslu rannsóknarnefndarinnar um fall bankanna eða í skýrslu rannsóknarnefndarinnar um aðkomu þýska bankans að kaupunum á Búnaðarbanka. 

Gengið eftir svörum

Finnur rekur að ráðherrar á tíðum einkavæðingarinnar og aðrir sem voru kallaðir til skýrslutöku hafi fengið tækifæri til að greina frá vitneskju sinni „að því marki sem þau gátu eða kusu að gera“. Einnig hafi verið reynt að meta með óformlegum samtölum hvort líkur væru á að skýrslutökur af öðrum einstaklingum gætu borið árangur og aflað frekari upplýsinga um einkavæðingarferlið. „Miðað við hvernig nefndirnar munu hafa gengið eftir svörum þeirra sem mættu í skýrslutökur og í samtölum vð aðra er þó vandséð að frekari skýrslutökur vegna þessa máls myndu leiða nokkuð frekara í ljós nú, a.m.k. meðan þessir einstaklingar eða ný gögn gefa ekki sérstakt tilefni til að ætla að fyrir hendi kunni að vera upplýsingar sem ekki hafi þegar komið fram.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Ný stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd var kosin þegar Alþingi kom saman eftir kosningar síðastliðið haust. Fyrir nefndinni liggja margar skýrslur sem hún þarf að fara yfir frá fyrri ári. Sumar eru einfaldar að gerð og kalla ekki á mikla vinnu. Skýrsla rannsóknarnefndarinnar um aðkomu Hauck & Aufhäuser að kaupum S-hópsins á hlut ríkisins í Búnaðarbankanum er ein af þeim sem verða sennilega hvað tímafrekastar í starfi nefndarinnar. 

Í janúar var skipuð undirnefnd til að fara yfir skýrsluna. Í henni sitja Helga Vala Helgadóttir, formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar, Jón Þór Ólafsson, þingmaður Pírata, og Kolbeinn Óttarsson Proppé, þingmaður Vinstri-grænna. Jón Þór sat í undirnefnd stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar sem fór með sama verkefni í fyrra en Helga Vala og Kolbeinn eru ný.