Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Telja krónprinsinn viðriðinn morðið

05.12.2018 - 12:42
Mynd með færslu
Fréttamenn ræða við Lindsey Graham eftir fundinn í gær. Mynd:
Formenn nefnda öldungadeildar Bandaríkjaþings segja fullvíst að Mohammed bin Salman krónprins í Sádi-Arabíu eigi aðild að morðinu á blaðamanninum Jamal Khashoggi, sem myrtur var á ræðismannsskrifstofu Sádi-Arabíu í Istanbúl 2. október.

Öldungadeildarþingmennirnir sögðu eftir að þeir fengu aðgang að upplýsingum bandarísku leyniþjónustunnar CIA í gær að stjórn Sádi-Arabíu yrði að gjalda fyrir morðið.

Gina Haspel yfirmaður bandarísku leyniþjónustunnar CIA upplýsti öldungadeildarþingmenn um rannsókn morðsins á lokuðum fundi í gær. 

Bob Corker, formaður utanríkismálanefndar öldungadeildar þingsins, segir að hann sé í engum vafa um að krónprinsinn hafi fyrirskipað morðið á Khashoggi. Ef prinsinn yrði dreginn fyrir dóm myndi kviðdómur úrskurða hann sekan á innan við hálftíma. 

Lindsey Graham, öldungadeildarþingmaður Rebúblikana, segir að það sé blindur maður sem ekki sjái að krónprinsinn beri ábyrgð á morðinu. Hann sé klikkaður og hættulegur og verði stjórn Saudi-Arabíu í höndum hans, verði  erfitt að eiga viðskipti við það land.

Graham segist ekki ætla að styðja vopnasölu til Saudi-Arabíu fyrr en allir þeir sem beri ábyrgð á morðinu á Jamal Khashoggi verði látnir svara til saka. Þá muni hann  ekki  lengur styðja styrjaldarreksturinn í Jemen.

Saksóknarar í Tyrklandi fóru í morgun fram á að handtökutilskipan sé gefin út á tvo nána aðstoðarmenn Salmans krónpris vegna morðsins á Khashoggi.

Annar mannana  er Ahmad al-Assiri, yfirmaður í her Saudi-Arabíu, náinn ráðgjafi krónprinsins.

Hinn heitir Saud al-Qahtani, sem hefur stjórnað handtökum á á meinum andstæðingum krónprinsins.

Hann er talinn hafa stjórnað morðinu á Khashoggi með því að gefa fyrirmæli til aftökusveitarinnar gegnum Skype fjarfundarbúnað.