Telja hækkun örorkulífeyris of litla

Mynd með færslu
Þuríður Harpa Sigurðardóttir, formaður ÖBÍ. Mynd: Jón Þór Víglundsson - RÚV
Stjórn Öryrkjabandalags Íslands lýsir yfir miklum vonbrigðum með fjárlagafrumvarp næsta árs. Bandalagið hefur skorað á Alþingi að gera strax breytingar á því og leiðrétta kjör örorkulífeyrisþega. 4,7 prósenta hækkun á næsta ári sé ekki nóg.

Stjórn Öryrkjabandalagsins kom saman til neyðarfundar í gær, 18. desember, vegna fjárlagafrumvarpsins. Í ályktun frá þeim fundi segir að hækka þurfi óskertan lífeyri almannatrygginga verulega og afnema hina svokölluðu „krónu á móti krónu“ skerðingu. Stjórn Öryrkjabandalagsins segir í ályktuninni að kjör meginþorra lífeyrisþega hafi rýrnað á síðustu árum. „Þrátt fyrir loforð hefur kjaragliðnun fyrri ára ekki verið leiðrétt. Þvert á móti hefur hún aukist,“ segir í ályktuninni. Kaupmáttur launa hafi aukist stöðugt ár frá ári síðan 2010. Hjá öryrkjum hafi kaupmáttur heildartekna rýrnað flest árin og það hafi lítið breyst síðustu tvö ár. Þá hafi byrði vegna húsnæðiskostnaðar, sem var mjög íþyngjandi fyrir, aukist enn meira.

Bent er á það í ályktuninni að í fjárlagafrumvarpi næsta árs sé ætlunin að hækka greiðslur til lífeyrisþega um 4,7 prósent. Það þýði að óskertur lífeyrir almannatrygginga myndi hækka úr tæpum 228.000 krónum á mánuði í rúmar 238.000 krónur. Eftir skatt yrði hækkunin um 6.700 krónur sem myndi litlu breyta fyrir fólk með lágar tekjur. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi