Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Telja frumvarp mismuna hinsegin fólki

10.11.2015 - 13:58
Mynd með færslu
Á umræddum ársfjórðungi fæddust 950 börn. Mynd: RÚV - Kastljós
Samtökin ´78 telja að frumvarp Kristjáns Þórs Júlíussonar, heilbrigðisráðherra, um staðgöngumæðrun mismuni á óbeinan hátt hinsegin fólki. Í frumvarpinu sé kveðið á um að annað væntanlegra foreldra þurfi að leggja til kynfrumur. Samtökin benda á að sá hópur sem eigi hvað erfiðast með aðgengi að ættleiðingum sé sami hópur og sé líklegastur til að geta ekki lagt fram kynfrumur.

Þetta kemur fram í umsögn samtakanna til velferðarnefndar Alþingis. Frumvarpið var lagt fram um miðjan síðasta mánuð. Kristján Þór Júlíusson, heilbrigðisráðherra, hefur sagt að þau skilyrði sem sett eru í frumvarpinu séu mjög ströng - það sé með vilja gert. 

Samkvæmt frumvarpinu getur sambúðarfólk eða einhleypir fengið leyfi til staðgöngumæðrunar en óheimilt verður að greiða sérstaklega fyrir það. Þá verður einnig óheimilt að nota kynfrumur staðgöngumóður, maka hennar eða þeirra sem eru skyldir heldur verður skylt að nota kynfrumu frá að minnsta kosti öðru væntanlegra foreldra.

Og það er síðastnefnda atriðið sem samtökin gagnrýna. Í umsögn þeirra kemur fram að hinsegin fólk og aðrir hópar (t.d fatlað fólk) hafi ekkert eða verulega skert aðgengi að ættleiðingum. Samtökin nefna sérstaklega á stöðu transfólks sem hafi farið í gegnum kynleiðréttingarferli. Í mörgum tilvikum útiloki það barneignir og framleiðslu á kynfrumum. Norðmenn ætla að breyta lögum um transfólk þannig að ekki þurfi að fjarlægja æxlunarfæri til þess að leiðrétta kyn.

Samtökin nefna einnig intersex fólk sem sé mjög ólíklegt til að geta lagt fram kynfrumur, meðal annars vegna aðgerða sem þau hafa sætt sem börn.  „Samtökin benda því á að sá hópur sem er hvað líklegastur til að geta ekki lagt fram kynfrumur sé sami hópur sem eigi hvað erfiðast með aðgengi að ættleiðingum. „Á þann hátt mismunar frumvarpið á óbeinan hátt hinsegin fólki.“

Samtökin telja að frumvarpið sé litað af þeirri skoðun að líffræðileg tengsl foreldra við börn séu æðri annarskonar tengingum og að frumvarpið geri lítið úr þeim. „Samtökin ‘78 hljóta að mótmæla slíkum ályktunum enda ganga þær í berhögg við hagsmuni fjölmargra félagsmanna okkar.“

Þau telja að frumvarp heilbrigðisráðherra ýti undir yfirskipun þeirra fjölskylduforma sem mest líkjast hinu gagnkynhneigða „sískynja normi þar sem líffræðileg tengsl eru ráðandi og ýtir um leið undir undirskipun fjölskyldutengsla sem ekki grundvallast á líffræði,“ og leggjast samtökin því gegn frumvarpinu í þeirri mynd sem það er nú.

Umræðan um staðgöngumæðrun komst í hámæli í tengslum við umfjöllun Kastljóss um mál Guðlaugar Elísabetar Ólafsdóttur, leikkonu. Hún gekk með barn fyrir frænda sinn og eiginmann hans. Barnaverndarstofa hefur einnig verið gagnrýnin á frumvarpið og spurði í sinni umsögn hvort hægt væri að setja „skynsamlega löggjöf um staðgöngumæðrun.“

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV