Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Telja frásögn Báru af Klaustri „út og suður“

21.12.2018 - 10:39
Mynd með færslu
 Mynd:
Fjórir þingmenn Miðflokksins hafa kært úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur til Landsréttar en héraðsdómur hafnaði kröfu þeirra um að fram færi vitnaleiðsla og öflun sýnilegra sönnunargagna um upptöku Báru Halldórsdóttur á vínveitingahúsinu Klaustri í nóvember. Í kærunni, sem fréttastofa hefur undir höndum, segir lögmaður þingmannanna að frásögn Báru af atvikum sé „öll út og suður.“

Stundin greindi fyrst frá kærunni

Reimar Pétursson, lögmaður þingmannanna, segir í kærunni að allt gefi til kynna að Bára hafi komið með það fyrirframgefna markmið að njósna um og taka upp samtöl þingmannanna. Hún hafi gengið fumlaust til verka og haft meðferðis bæklinga sem hún hafi notað sem yfirvarp og búnað sem henti til verksins. Bára hefur sjálf sagt að hún hafi notað gamlan Samsung-síma.

Þá segir í kærunni að Bára hafi dvalið á staðnum svo lengi sem fjórar klukkustundir. „Hafi hún þó sagst hafi verið á leiðinni á æfingu á leiksýningu sem ætlunin var að frumsýna tveimur dögum síðar, án þess að þetta hafi neitt tálmað þaulsetu hennar.“ Þetta gefi ríka ástæðu til að kanna hvort einhver annar hafi komið að framkvæmd þessarar aðgerðar eða hafi fylgt henni til hennar.

Í kærunni segja þingmennirnir að við þetta bætist að frásögn Báru sé „öll út og suður“. Eina stundina hafi hún sagt að samtalið hafi verið opinbert en aðra stundina lýsi hún erfiðleikum við að greina orðaskipti. „Og að hún hafi látið lítið fyrir sér fara til að fela ásetning sinn.“ Trúverðugleiki frásagnar hennar sé því enginn. 

Þá kemur fram í kærunni að þingmennirnir hafi fallið frá því að dómkirkjuprestur verði kallaður fyrir dóm. Þeim hafi verið tjáð að kirkjan héldi úti öryggismyndavélum en í ljós hafi komið að svo væri ekki. Sveinn Valgeirsson, dómkirkjuprestur, sagði í fréttum RÚV að eini eftirlitsbúnaðurinn sem eitthvað gæti tengst dómkirkjunni „væri hið alsjáandi auga drottins og hans alþunna eyra.“

Héraðsdómur hafnaði á miðvikudag kröfu þingmannanna. Dómurinn taldi ekkert benda til þess á þessu stigi að Bára hefði átt sér vitorðsmenn þegar hún tók samtöl þeirra upp. Kenningar og vangaveltur um að aðrir en Bára hafi komið að málum verði „að byggjast á einhverju öðru en því að hlutaðeigendur telji þetta eða hitt líklegt án þess að það sé rökstutt sérstaklega og með afmörkuðum hætti hvers vegna slíkar grunsemdir séu uppi.“ 

 

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV