Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Telja fellibylinn Maríu hafa banað yfir 1.000

19.12.2017 - 02:46
epa06188208 A man protects himself from the rain on an empty street before  the imminent passage through the island of Hurricane Irma in San Juan, Puerto Rico, 06 September 2017. Puerto Rico is preparing for the arrival of the category 5 hurricane.  EPA
Fáir voru á ferli í Púertó Ríkó í dag þar sem gert er ráð fyrir að fellibylurinn Irma komi þangað von bráðar. Mynd: EPA Images
Landstjóri Púertó Ríkó hefur fyrirskipað ítarlega rannsókn á mannfalli af völdum fellibylsins Maríu í september síðastliðnum. Með þessu bregst landstjórinn, Ricardo Roselló, við háværri og viðvarandi gagnrýni á fyrri samantekt á afleiðingum hamfaranna. Samkvæmt opinberum tölum fórust samtals 64 manneskjur á Púertó Ríkó þegar María fór þar hamförum hinn 20. september. Rannsóknir tveggja óháðra aðila benda til þess að margfalt fleiri, jafnvel yfir 1.000 manns, hafi farist af völdum fellibylsins.

Roselló hefur til skamms tíma haldið fast við opinberu töluna, en nú er komið annað hljóð í strokkinn. „Við höfum alltaf gert ráð fyrir því að fjöldi þeirra sem fórust í fellibylnum ætti eftir að aukast," segir í nýrri yfirlýsingu forsetans. „Með rannsókninni er ætlunin að ganga úr skugga um, hvort við höfum talið rétt." Auk þess að kanna fjölda látinna er ætlunin að fara í saumana á því hvernig dauða hvers og eins bar að höndum, til að fá betri yfirsýn yfir raunveruleg áhrif fellibylsins og hvernig hægt sé að fyrirbyggja samskonar hörmungar í framtíðinni.

María var fjórða stigs fellibylur þegar hún gekk yfir Púertó Ríkó og olli þar meiri eyðileggingu en dæmi þekkjast um í sögu landsins. Meðal annars fór rafmagn af allri eyjunni, líka á sjúkrahúsum. Enn er rafmagnslaust á sumum svæðum.

Rannsókn sem unnin var fyrir bandaríska blaðið New York Times á tölfræðigögnum hagstofu Púertó Ríkó sýnir að fyrstu 42 dagana eftir að María gekk á land á eyjunni dóu þar 1.052 manneskjur umfram það sem eðlilegt má telja, sé miðað við sama tímabil árin 2015 og 2016.

Könnun sem unnin var af Miðstöð rannsóknarblaðamennsku á Púertó Ríkó og birt á vefsíðu Latino USA, leiddi til svipaðrar niðurstöðu. Hún sýnir að fyrstu 40 dagana eftir að María dundi yfir dóu minnst 985 fleri en á sama tíma 2016. Ef allur september og allur október eru teknir saman er munurinn jafnvel enn meiri milli ára, eða 1.065, og það þrátt fyrir að um 100.000 manns hafi flutt frá Púertó Ríkó til meginlandsins í millitíðinni.

Meirihluti hinna látnu er fólk eldra en fimmtugt, af báðum kynjum, sem dó á sjúkrahúsum og hjúkrunarheimilum af völdum sjúkdóma á borð við sykursýki, Alzheimer, nýrnabilun, háþrýsting, lungnabólgu og aðrar sýkingar í öndunarfærum og fleira. Margfalt fleiri dóu sem sagt af þessum völdum í kjölfar fellibylsins en á öðrum tímum. Meðal nærtækra skýringa á þessu eru viðvarandi rafmagnsleysi, skortur á ýmsum lyfjum og öðrum lækningavörum og stóraukið álag á starfsfólk jafnt sem sjúklinga, sem allt má rekja til fellibylsins. 

Því sé rétt að telja þetta fólk til fórnarlamba hamfaranna, en ekki einungis þau sem fórust þegar hús hrundu, flóð dundu yfir eða lausamunir fuku í storminum sjálfum. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV