Telja ekki óhætt fyrir Róhingja að snúa heim

08.04.2018 - 13:54
epa06305794 YEARENDER 2017 OCTOBER
Róhingjar á flótta frá Mjanmar til nágrannaríkisins Bangladess. Mynd: EPA Images
Róhingjar geta ekki snúið aftur til heimkynna sinna í Rakhine-héraði, þar sem staðan þar hefur ekki batnað, að mati Sameinuðu þjóðanna. Um 700.000 Róhingjar hafa flúið ofsóknir stjórnarhersins í Mjanmar og farið til nágrannaríkisins Bangladesh. Stjórnvöld í Mjanmar hafa sagt að þeir geti snúið til baka.

Stjórnvöld í Mjanmar og Bangladesh skrifuðu undir samning um heimför flóttafólksins í nóvember en enginn þeirra hefur enn snúið heim. Ursula Mueller, aðstoðarframkvæmdastjóri Samhæfingarskrifstofu aðgerða Sameinuðu þjóðanna í mannúðarmálum, hefur verið á sex daga ferðalagi um Mjanmar. Hún fór meðal annars til Rakhine-héraðs. Róhingjar eru múslimar en mikill meirihluti íbúa landsins eru búddatrúar. Róhingjum hefur verið neitað um ýmis mannréttindi eins og aðgangi að heilbrigðisþjónustu og menntun. Þá eru þeir ekki frjálsir ferða sinna og án ríkisfangs. Mannskæðar ofsóknir hersins hófust í ágúst í fyrra eftir að uppreisnarmenn úr röðum Róhingja kveiktu í varðstöðvum yfirvalda. Næstu mánuði kveiktu hermenn í þorpum Róhingja, drápu fólk, nauðguðu og beittu annars konar ofbeldi. Enn eru um 400.000 Róhingjar í Mjanmar.

Fulltrúi Sameinuðu þjóðanna fór einnig til héraðanna Kachin og Shan í norðurhluta Mjanmar. Síðan í byrjun árs hafa staðið yfir bardagar á milli stjórnarhersins og vopnaðra hópa þjóðarbrota sem þar búa. AFP fréttastofan greinir frá því að hundrað þúsund manns í héruðunum tveimur, hið minnsta, hafi flúið síðan árið 2011. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi