Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Telja brotið á níu ára fatlaðri stúlku

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Freyr Arnarson - RÚV
Öryrkjabandalagið þarf oft að hafa afskipti af málum þar sem talið er að sveitarfélög uppfylli ekki skyldur gagnvart fötluðum. Níu ára stúlka í Hveragerði missti nokkrar vikur úr skóla í haust vegna þessa og beðið er lausnar. Faðir stúlkunnar vilja að bærinn uppfylli lög og reglur dóttur sinni til handa.

Victoría Rán er með heilalömun, skammstafað CP, og hún þarf mjög mikla þjónustu. Til dæmis þarf hún fylgd faglegs aðstoðarmanns sem þarf að fylgja henni á Selfoss fjórum sinnum í viku þar sem hún sækir skóla og sjúkraþjálfun.

„Fyrstu þrjár vikurnar gat hún ekki mætt í skólann vegna þess að hún fékk ekki ferðaþjónustu,“ segir Einar Michael Guðjónsson faðir Victoríu Ránar, „það er ekki komið í lag núna en hún er kominn með fylgdarmann en það er mikið að ennþá því miður. Við viljum að bæjarfélagið fari eftir lögum og reglugerðum og þar af leiðandi fái hún þessa þjónustu sem hún þarf sem að lögum samkvæmt hún á að fá.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Freyr Arnarson - RÚV
Einar Michael Guðjónsson

Steinar Vilbergsson verkefnastjóri aðgengismálahóps Öryrkjabandalags Íslands, ÖBÍ, segir að staða stúlkunnar sé orðin alvarleg:
„Félagsþjónustan hefði getað og átti að veita stúlkunni þjónustu í samráði við foreldra en hefur síðan ekki sinnt því og farið eftir tilmælum um að koma þessum málum í réttan farveg.“
Eru svona mál algeng hjá ykkur?
„Þau eru frekar algeng já og þess vegna veitum við ráðgjöf. Við skoðum þau mál sem koma inn og við reynum að leysa þau í samráði við alla málsaðila en stundum verða málin þannig að það virðist bara ekki vera hægt og þá bara förum við með þau eins langt og þarf.“

Samkvæmt upplýsingum frá bæjaryfirvöldum í Hveragerði verður svar sent Öryrkjabandalaginu í næstu viku og telja þau að bærinn uppfylli skyldur sínar í þessum málaflokki.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Freyr Arnarson - RÚV
Steinar Vilbergsson
Þórdís Arnljótsdóttir
Fréttastofa RÚV