Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Telja aðstæður við húsbyggingu lífshættulegar

27.02.2019 - 15:06
Mynd með færslu
Mynd úr safni. Mynd: RÚV
Vinnueftirlitið hefur bannað alla vinnu fyrirtækisins U2-bygg við Hraungötu 2 til 6 í Garðabæ. Eftirlitið mat aðstæður á vettvangi á þann veg að þær væru lífi og heilbrigði starfsmanna verulega hættulegar. Fyrirtækið má ekki hefja vinnu á ný fyrr en ýmsar úrbætur hafa verið gerðar.

Fyrirtækið hefur unnið að uppsteypu og frágangi á raðhúsi á þremur hæðum á þessum stað. Meðal þess sem Vinnueftirlitið gerir athugasemdir við er að fallvörnum á verkpöllum við húsið sé ábótavant. Víða vanti öll handrið á verkpalla og stór hurðar- og gluggagöt séu óvarin og svalir án fallvarna. Í skoðunarskýrslu Vinnueftirlitsins segir að slíkar aðstæður skapi slysahættu fyrir starfsmenn.

Starfsmaður á byggingakrana var ekki með tilskilin vinnuvélaréttindi og svæði í kringum krana var ekki girt af til að afmarka hættusvæði. Vinnueftirlitið gerði einnig athugasemdir við að aðstaða starfsmanna væri ekki nógu góð. Kaffistofan væri hluti af fatageymslu. Því hefur verið beint til fyrirtækisins að útbúa kaffistofu sem aðeins er notuð til að matast og hvílast í. Þá var ekki vaskur með rennandi vatni hjá salerni.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir