Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Telja að Þykkvabæjarklaustur sé fundið

10.05.2015 - 19:33
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fornleifafræðingar hafa fundið rústir stórrar byggingar í Álftaveri á Suðurlandi, sem eru stærri en rústir Skriðuklausturs. Talið að þær séu rústir Þykkvabæjarklausturs.

Takmarkaðar heimildir eru til um klaustur á Íslandi en talið er að þau hafi verið 14. Flestar rústir þeirra eru týndar. Fornleifafræðingar hafa undanfarið leitað að klausturrústum hér á landi til að skrásetja þær og er verkefnið styrkt af Rannís og Rannsóknasjóði Háskóla Íslands. Verkefnið er unnið í samstarfi við breska fornleifafræðinga sem hafa útvegað jarðsjár til að nota við leitina. Úti á miðju túni, 200-300 metra frá Þykkvabæjarklausturskirkju og 200-300 metra frá bænum námu jarðsjárnar útlínur stórra rústa.

Töldu að klaustrið hefði staðið við kirkjuna

Rústirnar voru þekktar en höfðu ekki verið skoðaðar áður. Þetta kom Steinunni Kristjánsdóttur fornleifafræðingi í opna skjöldu. „Það kom á óvart að það kæmi í ljós svona svakalega stór bygging þarna og vegna þess að það var alltaf talið að klaustrið hafi staðið við kirkjuna, og við mældum náttúrlega það svæði allt og fundum ekki rústirnar,“ segir Steinunn. 

Svæðið er nærri því ferkantað og bendir allt til þess að þarna hafi verið gríðarlega stór bygging, allt að átján hundruð fermetrar að grunnfleti. „Ég þekki ekki til svona stórrar rústar eða byggingar frá miðöldum eða frá seinni tímum heldur og þá er ég náttúrlega að tala um fornleifar og en hún er stærri meira að segja heldur en Skriðuklaustur.“

 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV
Bjarni Pétur Jónsson
Fréttastofa RÚV