Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Telja að teflt sé á tæpasta vað

11.09.2018 - 19:36
Mynd: RÚV / RÚV
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Miðflokksins, eru sammála um að teflt sé á tæpasta vað í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar sem kynnt var í dag. Haukur Holm, fréttamaður, ræddi við þá í beinni útsendingu í sjónvarpsfréttum.

„Við erum að fara í mikinn kjarabaráttuvetur og þar lítur frumvarpið út eins og ríkisstjórnin sé dálítið að halda að sér spilunum, stinga þeim aðeins upp í ermina. Þau sýna jú þarna barnabótalagfæringuna. Annars virðast þau bíða þangað til kjarabaráttan fer af stað og þá geta þau kannski dregið eitthvað út úr erminni,“ segir Björn Leví. „Þetta á tæpasta vaði, við erum komin að þeim mörkum sem fjármálaáætlunin lagði upp með. Hagkerfið virðist vera á hægri niðurleið miðað við hagspár.“

Sigmundur Davíð telur að aðgerðir ríkisstjórnarinnar hafi lítið að segja fyrir komandi vetur og kjarabaráttuna. Hann gagnrýnir að bæta eigi við 175 milljónum á milli ára til að ráða pólitíska aðstoðarmenn. „Allt er þetta til marks um það að þessi fjárlög ganga út á að að tefla á tæpasta vað efnahagslega til að geta aukið enn á kerfið, á báknið,“ segir hann. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir