Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Telja að fiskeldi bitni á hvalaskoðun

08.04.2019 - 11:37
Mynd með færslu
 Mynd: Akvafuture - RÚV
Hvalaskoðunarfyrirtæki eru uggandi yfir áformum um fiskeldi í Eyjafirði. „Þetta eru ekki bara nokkur ker úti á firði heldur er þetta stóriðja,“ segir Halldór Áskelsson, eigandi Keli Sea Tours en hann gagnrýnir hvernig staðið sé að málinu.

„Ég fór á fund hérna hjá Atvinnuþróunarfélagi Eyjafjarðar og þar var tónninn sá að það ætti að gera þetta í sátt við samfélagið og náttúruna og ég sé bara ekki að samfélagið, til dæmis, sé eitthvað haft með í ráðum,“ segir Halldór

Þá segir Halldór að verið sé að taka auðlindirnar í firðinum og afhenda þeim erlendum peningamönnum eða stórfyrirtækjum og troða á hagsmunaaðilum í Eyjafirði. 

Eyjafjörður auglýstur sem náttúruparadís

Fyrirtækið AkvaFuture undirbýr allt að 20 þúsund tonna laxeldi í firðinum. Halldór telur að það sé miklu stærra en fólk geri sér grein fyrir. 

Áformað er að setja kvíar á sex staði beggja vegna fjarðarins, frá Akureyri út að Hjalteyri sem er siglingarleið hvalaskoðunarfyrirtækja inn og út úr Eyjafirði.
Forsvarsmenn hvalaskoðunarfyrirtækja hafa áhyggjur af því að þetta eigi eftir að hafa áhrif á siglingar þeirra og Halldór segir að af þessu verði mikil sjónmengun.

„Nú á sama tíma og það er verið að auglýsa Eyjafjörð sem náttúruparadís og selja náttúru fjarðarins með beinu flugi erlendis frá, þá er verið að planta einhverja stærsta fiskeldi Íslandssögunnar í miðja náttúru Eyjafjarðar. Mér finnst hægri höndin ekki vita nákvæmlega hvað sú vinstri er að gera,“ segir Halldór.

Vinna samkvæmt gildandi lögum

„Við hjá AkvaFuture viljum hafa umsóknarferlið eins opið og unnt er,“ segir Rögnvaldur Guðmundsson, framkvæmdastjóri AkvaFuture ehf. í grein sem birtist á Vísi á dögunum. Þar segir Rögnvaldur enn fremur að þeir hafi í október 2017 birt auglýsingu í öllum helstu miðlum á Eyjafjarðarsvæðinu. Í henni hafi AkvaFuture kynnt áform sín og boðið öllum sem létu sig málið varða að senda inn athugasemdir um áformin.

„Við höfum meðal annars átt fundi með fulltrúum sveitarfélaganna í Eyjafirði. Við höfum komið á opinn íbúafund á Grenivík, verið með kynningu fyrir bæjarfulltrúum Akureyrarbæjar og verið í miklum og góðum samskiptum við Atvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar og háskólasamfélagið á Akureyri,“ segir Rögnvaldur. Þá segir hann að fyrirtækið hafi ekki fengið nein loforð varðandi fiskeldið og að þau vinni sitt umsóknarferli samkvæmt gildandi lögum. 

Dýravelferð í fyrirrúmi

Mat á umhverfisáhrifum á eftir að leiða í ljós hvort hægt sé að stunda eldi á öllum þessum sex stöðum sem eru til athugunar. Þá bendir Rögnvaldur einnig á að ekki hafi verið ákveðið að framleiða 20 þúsund tonn en það sé verið að meta umhverfisáhrif af þeirri framleiðslu. 

„Við sjáum fyrir okkur að umhverfisvænt laxeldi geti haft samlegðaráhrif við ferðamennsku, því að margir ferðamenn hafa áhuga á umhverfinu og vilja kynna sér sjálfbærar matvælalausnir sem draga úr vistfótsporinu og hafa dýravelferð í fyrirrúmi,“ segir Rögnvaldur.

Grein Rögnvalds má finna hér

Fréttin hefur verið uppfærð.