Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Tekur vel í hugmyndir um sameiningu

16.04.2016 - 14:31
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Oddviti Skaftárhrepps tekur vel í hugmynd bæjarstjórans á Hornafirði um mögulega sameiningu sveitarfélaga. Samstarf í byggðasamlögum hafi ekki reynst hreppnum nógu vel. Bæjarstjóri Sveitarfélagsins Hornafjarðar hefur varpað fram þeirri hugmynd að Skaftárhreppur, Hornafjörður og Djúpivogur sameinist í eitt öflugt sveitarfélag á Suðausturlandi.

Það myndi ná frá Mýrdalsjökli í suðri að Berunesi í austri. Það yrði langsamlega landmesta sveitarfélagið á landinu, meira en 14 þúsund ferkílómetrar eða tæp 14% af flatarmáli Íslands. Íbúar yrðu tæplega 3.100.

Skaftárhreppur er nú annað landmesta sveitarfélag landsins og byggðin er dreifð. Af 470 íbúum á aðeins tæpur þriðjungur heima í þéttbýlinu á Klaustri. Eva Björk Harðardóttir er oddviti.

„Við náttúrulega erum frekar fámenn miðað við stórt landsvæði þannig að allur rekstur verður svolítið þungur. Þetta er ekki góð rekstrarleg eining, alls ekki.“ 

Skaftárhreppur er nú í samstarfi í hina áttina, ekki austur til Hafnar heldur til Víkur og vestur að Hellu í skólamálum, málefnum fatlaðra og félagsmálum. Eva Björk telur að slíkt samstarf setji hreppnum skorður og hann hafi misst frá sér stjórn á fjármálum.

„Við erum svolítið upp á önnur sveitarfélög komin með það og þurfum svo bara að borga brúsann þannig að þetta er ekki óskastaða.“

Vegna fámennis sveitarfélagsins verði sumir málaflokkar dýrir. Hún ítrekar að sameining sé órædd og einnig hvort sameinast ætti til austurs eða vesturs.

„Það skiptir okkur mjög miklu máli að stækka sveitarfélagið þannig að það nái þeim fjölda sem þarf að hafa til að halda utan um þessa viðkvæmu málaflokka. Við erum alveg tilbúin að skoða sameiningar og verðum að vera það. Engar þreifingar hafa svo sem farið fram enn þá en þessi umræða verður að fara af stað.“

Hún segir það ekki sjálfgefið að í minni sveitarfélögum sé fólk tilbúið að leggja mikið af mörkum í sveitarstjórn. „Það er ekki einfalt að taka svona í hálfgerðri sjálfboðavinnu. En þetta er skemmtilegt og fólk hefur metnað til þess að standa sig vel og vinna að sveitastjórnarmálum sem betur fer enn þá. En það er ekki sjálfgefið.“ 

 

 

 

 

 

 

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV