Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Tekur vel í að Eyjamenn reki Herjólf

11.05.2017 - 18:08
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Vel kemur til greina að Vestmannaeyjabær taki yfir rekstur Herjólfs að mati Jóns Gunnarssonar samgönguráðherra. Hann segist skilja óánægju Vestmannaeyinga sem búa við að afleysingarskipið Baldur siglir gjarnan ekki vegna veðurs.

Herjólfur er í slipp og kemur ekki til baka fyrr en eftir um mánuð. Nýtt skip er í smíðum og kemur eftir rúmt ár. Í gær var haldinn fjölmennur borgarafundur í Eyjum þar sem þess var krafist að Eyjamenn fái sjálfir að ráða fjölda ferða á dag. Í raun vilja þeir taka yfir reksturinn og hyggjast bera þá tillögu formlega upp við ráðherra. Jón Gunnarsson samgönguráðherra tekur vel í þá hugmynd. 

„Ég er mjög jákvæður fyrir því að við skoðum alla möguleika í útfærslum á rekstri skipsins, ég tel reyndar að það geti verið mjög jákvætt í mörgu tilliti að þetta sé rekið af Eyjamönnum sjálfum með einhverjum hætti í samvinnu með okkur og það er auðvitað fólkið sem hefur, eins og maður getur orðað það, puttann á púlsinum í þessu. Að meta þarfir þeirra sem þarna búa og ég held að þetta geti bara verið mjög áhugavert að skoða það,“ segir Jón. 

Þessa dagana reiða Eyjamenn sig á ferjuna Baldur sem ekki hefur siglingarleyfi í Þorlákshöfn og oft falla niður ferðir í Landeyjahöfn vegna veðurs. Jón segist sjá eftir forvera Baldurs sem var seldur til Jómfrúaeyja, sú ferja hefði getað siglt í Þorlákshöfn. Og hann segist skilja gremju Eyjamanna.

„Við höfum þegar gert samkomulag við rekstraraðila skipsins um að fjölga ferðum í sumar yfir háannatímann, bæta við einni ferð. Ég veit að það var mikil ánægja með það í Eyjum. Þetta var hugmynd sem kom þaðan og það var tekið vel í það og það var samið um það. Herjólfur er að koma til baka úr slipp og við skulum vona að veturinn hafi verið að snýta því síðasta núna og það verði hægt að sigla í Landeyjahöfn. Þá held ég að þetta geti verið í góðu standi svona framundan og svo held ég að við horfum bara öll full tilhlökkunar til þess að nýtt skip komi til landsins í júní á næsta ári,“ segir Jón.

 

einar's picture
Einar Þorsteinsson
Fréttastofa RÚV