Tekur undir kröfur um fræðslu um áreitni

Mynd með færslu
 Mynd: Óðinn Jónsson - Morgunvaktin
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra tekur heilshugar undir það að konur, hvar sem þær starfa, eigi að geta unnið sína vinnu án áreitni, ofbeldis og mismununar. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef mennta- og menningarmálaráðuneytis.

Konur innan menntageirans sendu á dögunum frá sér yfirlýsingu þar sem þess er krafist að settir verði upp skýrir verkferlar hjá menntastofnunum til að takast á við kynbundna áreitni og að boðið verði upp á fræðslu fyrir starfsfólk og stjórnendur um birtingarmyndir hennar.

Lilja hefur sent fyrirspurn til stofnana ráðuneytisins um það hvort gert hafi verið áhættumat og gefin út skrifleg viðbragðsáætlun í samræmi við reglugerð um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi á vinnustöðum.

Á vef ráðuneytisins segir að ráðherrann taki undir kröfur kvenna innan menntastofnana um fræðslu fyrir starfsfólk og stjórnendur. Hún vill einnig að fræðslan nái til nemenda, þeim þurfi að tryggja viðunandi úrræði og stuðning verði þeir fyrir hvers kyns mismunun. Þá verður áhersla lögð á að fyrirhuguð rannsókn á vegum félags- og jafnréttismálaráðuneytis til að meta umfang kynferðislegrar áreitni og ofbeldis og eineltis á vinnumarkaði nái einnig til menntastofnana. 

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi