Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Tekur undir að reglusetningin sé klúður

10.03.2016 - 23:27
9/2/2016
 Mynd: RÚV
Fjármálaráðherra tekur undir með þeim sem hafa sagt reglusetningu Seðlabankans um gjaldeyrishöft og málshöfðanir á grundvelli þeirra klúður. Bíða þurfi niðurstöðu sérfræðinga sem hafa tekið að sér að gera óháða úttekt á málinu áður en hægt sé að átta sig á hver beri ábyrgð á málinu.

Vel á þriðja tug mála, er höfðu verið til rannsóknar hjá efnahagsbrotadeild og embætti sérstaks saksóknara, og vörðuðu meint brot á reglum Seðlabankans um gjaldeyrismál, féllu um sjálf sig þegar að í ljós kom að enginn lagagrundvöllur var fyrir þeim. Mörg málanna höfðu þá verið í réttarkerfinu í fimm ár. Vararíkissaksóknari hefur sagt að Seðlabankinn hafi klúðrað málinu.

Bankaráð Seðlabankans hefur ákveðið að ráðast í sérstaka úttekt í framhaldi af því að Umboðsmaður Alþingis vakti athygli á að það væru vísbendingar um brotalamir innan Seðlabankans. Henni verður skilað fyrir miðjan apríl.

„Það er svo sem ekki gott að segja hvort hægt sé að heimfæra ábyrgðina á einhvern ákveðinn," segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. 

„Þarna er í raun um það að ræða að reglur sem menn ætluðu sér að setja voru aldrei fullgerðar. Og á ekki einhver að axla ábyrgð á því? Það má kannski segja að það sé mjög mikill ábyrgðarhluti að setja af stað rannsóknir þegar að grundvöllurinn er ekki til staðar en þá getur reynt á það hvort menn voru í góðri trú eða ekki. Þetta er meðal  þess sem við þurfum að skoða betur,“ segir Bjarni.

„Það sem að er alvarlegt í þessu máli er að hópur fólks liggur undir grun um býsna alvarlega háttsemi árum saman án þess að til staðar sé lagagrundvöllur til þess að ákæra menn eða sakfella þá. Við verðum að taka því mjög alvarlega þegar að það verða brestir í kerfinu hjá okkur sem að leiða til þess að fólk lendir í þessari stöðu. Ég tek alltaf stöðu með fólkinu á móti kerfinu í svona málum.“

Tugir sérfræðinga saksóknara eyddu þúsundum klukkustunda í málin, sem öll urðu að engu með tilheyrandi kostnaði sem fellur á ríkið.  

„Ég þekki ekki að sá kostnaður hafi verið tekinn saman. Það kann að vera erfitt að sundurgreina hann sérstaklega. Ég tek undir með þeim sem segja að málið í heild sinni sé klúður," segir Bjarni.

 

Mariash's picture
María Sigrún Hilmarsdóttir
Fréttastofa RÚV