Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Tekur fylgistapi ekki persónulega

20.08.2018 - 21:52
Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson/RÚV
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra kveðst ekki taka því persónulega að fylgi Vinstri grænna hafi ekki mælst minna í tæp þrjú ár, og að ríkisstjórnin njóti í fyrsta skipti stuðnings minnihluta kjósenda. Hún segist hafa átt von á fylgistapi þegar flokkurinn fór í umdeilda ríkisstjórn.

Samkvæmt mánaðarlegum þjóðarpúlsi Gallups hefur fylgi VG dalað undanfarið og tölur sem birtar voru í byrjun ágúst sýna að fylgi flokksins hefur ekki verið minna frá því í lok árs 2015. VG bætti verulega við sig fylgi í kjölfar birtingar Panamaskjalanna árið 2016 og fyrir kosningarnar 2017 mældist flokkurinn með tæplega 25 prósenta fylgi. Flokkurinn hafði tæplega sautján prósenta fylgi eftir þingkosningarnar í október 2017 en mælist nú í 10,7 prósentum. 

„Ég átti nú von á því þegar við fórum í þessa umdeildu ríkisstjórn að okkar fylgi myndi minnka við það. Það hefur gert það,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra. „Það er þó ekki minna en þegar við vorum stjórnarandstöðu frá 2013 -15. Þannig við höfum séð alls konar fylgistölur í minni hreyfingu. En ég hef hins vegar þá trú að við eigum alveg eftir að ná góðum árangri sem muni skila sér í auknu fylgi þegar líður á kjörtímabilið.“

Stuðningur við ríkisstjórnina minnkar líka, mælist nú 49,7 prósent og hefur aldrei verið minni. „Ég tek nú mest mark á þeim skoðanakönnunum sem eru framkvæmdar hér hverju sinni í kosningum. Því ég veit það að fylgið getur sveiflast mikið í skoðanakönnunum, og það hefur gert það í þau ellefu ár sem ég hef verið á þingi. Þannig að mestu skiptir að vera bara trúr sínu erindi og sínum verkefnum. Og það höldum við áfram að vera.“

Þannig þú tekur þessu ekki persónulega?

„Nei, ég ætla ekki að taka þessu persónulega.“

Þórhildur Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV