Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Tekjuskattur lækkar mest um 3.984 krónur

03.10.2013 - 10:13
Mynd með færslu
 Mynd:
Mesti ávinningur einstaklinga vegna lækkunar tekjuskatts verður 3.984 krónur á mánuði. Það er hjá fólki sem er með 770 þúsund krónur í mánaðarlaun eða meira. Tekjuskattsgreiðslur þeirra sem hafa 250 þúsund krónur eða minna í laun á mánuði standa í stað.

Þetta er niðurstaðan úr útreikningum á því hvernig skattbyrðin breytist með lækkuðu skatthlutfalli í miðþrepi tekjuskattsins, sem fréttastofa lét vinna fyrir sig. Skatthlutfallið af mánaðartekjum á bilinu 241.476 til 739.509 krónur lækkar úr 25,8 prósentum í 25,0 prósent um áramót. Í þessum útreikningum er miðað við að fólk greiði fjögurra prósenta iðgjald í lífeyrissjóð en greiði ekki tveggja prósenta framlag í viðbótarlífeyrissparnað.

372 króna lækkun fólks með 300 þúsund í mánaðarlaun

Eins og sjá má á meðfylgjandi töflu lækka skattar fólks með 300 þúsund króna mánaðarlaun um 372 krónur og um 1.140 krónur hjá þeim sem hafa 400 þúsund krónur í mánaðarlaun. Upphæðin fer hækkandi þar til fer að gæta áhrifa efsta skattþrepsins, en það stendur í stað líkt og lægsta skattþrepið, mesta mánaðarlega skattalækkun er 3.984 krónur. Árlegur ávinningur er 4.464 krónur fyrir þann sem er með 300 þúsund krónur í mánaðarlaun og 13.680 krónur fyrir þann sem er með 400 þúsund krónur í mánaðarlaun. Þeir sem mestan ávinning í krónum talið eru þeir sem eru með um 770 þúsund krónur í mánaðarlaun, skattalækkunin skilar þeim 47.808 krónum á ári.

Margvíslegar breytingar

Margvíslegar breytingar eru gerðar á gjöldum og sköttum auk breytinga í bótakerfinu.

Frítekjumark fjármagnstekjuskatts vegna vaxtatekna einstaklinga hækkar úr 100 þúsund í 125 þúsund krónur. Hæstu fæðingarorlofsgreiðslur hækka úr 350 þúsundum í 370 þúsund, frítekjumark barna hækkar úr 104.745 í 180 þúsund krónur. Stimpilgjöld falla niður við endurfjármögnun lána en hækka í öðrum tilfellum, svo sem þegar tekin eru ný lán til húsnæðiskaupa.

Dregið er úr skerðingum til elli- og örorkulífeyrisþega og félagsleg aðstoð aukin, þetta hefur í för með sér 5 milljarða útgjöld ríkissjóðs. Hækkun vaxtabóta til tekjulágra verður framlengd en hún hefði að óbreyttu fallið niður um áramót. Þá er átakið Allir vinna framlengt, sem felur í sér endurgreiðslur á virðisaukaskatti vegna íbúðar- og frístundahúsnæðis.

Einnig má nefna að einnota bleyjur færast úr efra þrepi virðisaukaskattkerfisins í það neðra, úr 25,5 prósentum í sjö prósent. Algeng lækkun á verði bleyjupakka gæti verið 300 krónur, að sögn kunnugra.

Ýmis gjöld hækka. Þar má nefna útvarpsgjald, umhverfis- og auðlindaskatta, áfengis- og tóbaksgjald, vörugjald af ökutækjum, eldsneyti og fleira, olíu- og kílómetragjald og bifreiðagjald. Þau hækka öll í samræmi við verðlagshækkanir. Gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra hækkar úr 9.604 krónum í 9.911 krónur. Skrásetningargjald í opinberum háskólum hækkar úr 60 þúsund krónum í 75 þúsund. Komugjald á heilsugæslustöðum hækkar og tekið er upp nýtt innlagningargjald fyrir þá sem leggjast inn á sjúkrahús.

Þriggja þrepa skattkerfi
Tekjuskattskerfinu var breytt í tíð síðustu ríkisstjórnar. Þá voru tekin upp þrjú þrep í skattheimtu í stað eins áður. Því er greiddur mishár skattur af tekjum eftir því hversu háar þær eru. 22,9 prósenta skattur reiknast af tekjum upp að 241.475, tekjuskattshlutfallið hækkar í 25,8 prósent af tekjum á bilinu 241.476 til 739.509 krónur, en lækkar í 25,0 prósent samkvæmt því sem kom fram við kynningu á fjárlagafrumvarpinu. Greiddur er 31,8 prósenta skattur af tekjum umfram 739.509 krónum á mánuði. Ofan á þetta bætist útsvar, sem er að meðaltali 14,42 prósent í ár, en persónuafsláttur dregst frá.

Ríkisstjórnin hyggst endurskoða tekjuskattskerfið.

[email protected]