Athugið þessi frétt er meira en 8 ára gömul.

Tekjur duga ekki fyrir gjöldum

Mynd með færslu
 Mynd:
Tekjur sex sveitarfélaga dugðu ekki fyrir venjulegum útgjöldum í fyrra. Hjá sveitarfélaginu Skagaströnd voru rekstrargjöld þriðjungi hærri en tekjur í fyrra. Þrjú sveitafélög skulda hátt í þrefaldar árstekjur sínar.

Í árbók sveitarfélaga sem kom út í gær má finna upplýsingar um fjárhagsstöðu allra sveitarfélaga landsins um síðustu áramót. Þar má meðal annars sjá að sex sveitarfélög hafa neikvætt veltufé frá rekstri - það þýðir að tekjur sveitarfélaganna duga ekki fyrir venjulegum útgjöldum, hvað þá til að niðurgreiða skuldir eða fjárfesta.

Þetta eru sveitarfélögin Eyja- og Miklaholtshreppur, Þingeyjarsveit og Breiðdalshreppur en þar eru útgjöldin 1,4 til 3,6 prósentum hærri en tekjurnar. Heldur verri er staða sveitarfélagsins Voga. Þar voru útgjöldin ríflega sex prósentum hærri en tekjurnar í fyrra, í Helgafellssveit voru þau níu prósentum hærri en tekjurnar en sveitarfélagið Skagaströnd kom verst út úr þessum samanburði. Þar voru útgjöld sveitarfélagsins 34,5 prósentum hærri en tekjurnar í fyrra. Sú niðurstaða skýrist af hitaveituframkvæmdum sem bókfærðar eru sem óreglulegir liðir, segir Adolf Berndsen, oddviti sveitarstjórnar. Ef litið er fram hjá þeim kostnaði var afgangur af rekstri sveitarfélagsins.

Fimmtán sveitarfélög skulda meira en 150 prósent af tekjum - en það er það skuldaþak sem lögfest var á Alþingi fyrir tveimur árum. Sveitarfélögin skulu ná því markmiði á næstu átta árum. Verst er skuldastaða Sandgerðisbæjar en þar nema skuldirnar 275 prósentum af tekjum, í Fjarðabyggð og Reykjanesbæ nema þær 257 prósentum af árstekjum sveitarfélaganna.