Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Tekist að breyta lofti í grjót á skömmum tíma

09.06.2016 - 19:00
Mynd með færslu
 Mynd: Orkuveita Reykjavíkur - RÚV
Orkuveitunni hefur tekist í samvinnu við evrópska og bandaríska vísindamenn að umbreyta útblæstri úr virkjunum í grjót. Greint er frá þessu í vísindatímaritinu Science.

Orkuveita Reykjavíkur hóf árið 2007 að reyna að binda koltvísýring sem kemur frá jarðvarmavirkjunum og draga þannig úr útblæstri. Á morgun greinir svo tímaritið Science frá merkum áfanga í verkefninu.

„Niðurstöðurnar voru afskaplega ánægjulegar,“ segir Edda Sif Pind Aradóttir, sérfræðingur í efna- og forðafræði á Þróunarsviði OR og verkefnisstjóri  CarbFix. „Við sjáum að bindingin gerist miklu hraðar heldur en við þorðum nokkurn tímann að vona. Við erum búin binda 95% af því sem við dældum niður innan 2ja ára sem er margfalt hraðari binditími heldur en áður var gert ráð fyrir. Almennt er talað um að í hefðbundinni niðurdælingu á koltvísýringi þar taki þetta ár hundruðir og árþúsundir ef þetta gerist yfir höfuð,“ segir Edda Sif.

Verkefnið er unnið í samvinnu við Háskóla Íslands og evrópska og bandaríska vísindamenn. Það gengur út áð breyta koltvísýringi, sem kemur til dæmis þegar maður andar frá sér, yfir í grjót eins og silfurberg. „Frekar en að sleppa koltvísýringi frá virkjun út í andrúmslofið þá dælum við honum aftur ofan í jörðina þar sem hann binst í grjót,“ segir Edda Sif. „Og alls staðar í heiminum þar sem er basalt má beita sömu aðferð. Þannig að við erum að sýna afskaplega jákvæðar niðurstöður sem vonandi má nota til að glíma við loftlagsvandann,“ segir Edda Sif.

En þetta hljómar næstum of gott til að vera satt, það er ekki verið að blekkja neitt? „Nei, nei, alls ekki. Aðferðin miðar að því að nota einfaldar aðferðir til þess að hreinsa koltvísýring úr gasstrauminum frá virkjuninni. Þetta er ekki kostnaðarsamt. Við höfum metið að kostnaðurinn sé um 3500 krónur á tonnið. Það er í rauninni þessi einfaldleiki sem gerir aðferðina svona ódýrara, við gerum í rauninni ekkert annað en að leysa koltvísýring í vatni og dælum vatninu svo niður með koltvísýringnum í þannig að þetta er í rauninni bara svona einfalt Soda stream, þannig séð,“ segir Edda Sif.

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV