Tekist á um náttúruvernd

19.02.2013 - 19:06
Mynd með færslu
 Mynd:
Ekki eru allir sáttir við nýtt frumvarp til laga um náttúruvernd

Frumvarp til laga um náttúruvernd liggur fyrir alþingi og er stefnt að því að afgreiða sem lög fyrir þinglok. Það verður viðamikill lagabálkur og víst er að ekki eru allir á eitt sáttir, eins og sextíu umsagnir og athugasemdir sem umhverfis og samgöngunefnd hafa borist gefa til kynna. Við ætlum að taka hér til umfjöllunar einn þátt frumvarpsins, sem mjög hefur verið deilt um undanfarið en það er almannarétturinn, réttur fólks til að ferðast um landið og njóta þess, hvaða ferðamáta sem menn annars kjósa sér. Sumum, eins og landeigendum þykir rétturinn vera of rúmur samkvæmt frumvarpinu, öðrum þykir sem verið sé að þrengja hann. Þetta atriði var efst á baugi á fjölmennum fundi í Norræna húsinu í gærkvöldi sem Landvernd boðaði til og í Speglinum ræddu málin tveir af framsögumönnunum í gærkvöldi, þeir Skúli H Skúlason framkvæmdastjóri Útivistar og Mörður Árnason alþingismaður og framsögumaður í málinu af hálfu umhverfisnefndar og samgöngunefndar alþingis. Einnig kom í Spegilinn Hafliði Sigtryggur Magnússon formaður Ferðaklúbbsins fjórum sinnum fjórir.