Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Tekist á um áframhaldandi veru Breta í ESB

23. júní kjósa Bretar í þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi veru í Evrópusambandinu, sem þeir nefna í daglegu tali Brexit. Opinber kosningabarátta fyrir atkvæðagreiðsluna hófst fyrir helgi. Þetta mál litar nú alla pólitíska umræðu í Bretlandi og mun gera fram að kjördegi. Ný könnun, sem birt var í Daily Telegraph 19. apríl, bendir til þess að þeir, sem vilja að Bretland verði áfram í Evrópusambandinu, hafi styrkt stöðu sína verulega.

Lengi verið óánægja í Íhaldsflokknum með ESB aðild

Það hefur lengi verið djúpstæð óánægja í breska Íhaldsflokknum og á hægri væng stjórnmálanna með Evrópusambandsaðild Breta. Málið eitraði samskipti ráðherra í stjórn Johns Majors á tíunda áratugnum og hefur klofið flokkinn æ síðan. Uppgangur sjálfstæðisflokks Bretlands, UKIP og ótti við hann gæti gert Íhaldsflokknum skráveifu varð til þess að David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, lofaði þjóðaratkvæðagreiðslu um veru Breta í Evrópusambandinu í janúar 2013.

Mikið fjallað um Brexit

Mikið er fjallað um kosningabaráttuna fyrir þjóðaratkvæðagreiðsluna í breskum miðlum. The Economist hefur lofað hlutlausri umfjöllun þó að ritstjórn blaðsins mæli með áframhaldandi veru. Blaðið er með ágæta samantekt á helstu röksemdum varðandi Brexit.

BBC er með viðamikla umfjöllun á vef sínum þar sem sannleiksgildi yfirlýsinga í kosningabaráttunni er athugað. (Reality check)

Þjóðaratkvæðagreiðsla ákveðin

Cameron samdi svo fyrr á þessu ári um breytt aðildarskilyrði Breta og boðaði til þjóðarkvæðagreiðslunnar. Hann er sjálfur ekki í vafa um að hag Breta sé betur borgið innan sambandsins en utan, sérstaklega eftir að hann samdi um breytt aðildarskilyrði Breta. Cameron berst því hatrammlega fyrir því að Bretar velji að vera áfram. 

Boris Johnson, borgarstjóri Lundúna og flokksbróðir Camerons, er einn helsti talsmaður þeirra sem vilja fara. Hann gefur lítið fyrir breyttu aðildarskilyrðin og segir engar grundvallarbreytingar hafa átt sér stað.

Rök með úrsögn

Eiríkur Bergmann Einarsson, prófessor í stjórnmálafræði, segir að ástæður fyrir því margir Bretar vilji fara sé tvíþættar. Það séu fullveldisrök og efnahagsleg rök. Reglugerðarfargan ESB hefti Breta og þeir ráði ekki sínum eigin málum sjálfir og áhrif þeirra séu lítil. Á efnahagssviðinu vilji þeir hindrunarlaus viðskipti og það geti þeir þó að þeir séu utan sambandsins.

Boris Johnson hefur lagt mikla áherslu á fullveldið, fólk vilji að þau sem það kýs ráði málum þeirra, ekki umboðslausir búrókratar í Brussel. Þá sé ótækt að Evrópudómstóllinn hafi síðasta orðið í dómsmálum 500 milljóna manna og ekki sé hægt að áfrýja dómum hans.

Mörgum Bretum þykir frjáls og óheftur flutningur fólks milli ríkja Evrópusambandsins hafa leitt til þess að allt of margir útlendingar hafi flust til Bretlands. UKIP elur mjög á ótta og tortryggni almennings í garð innflytjenda. Þetta ræður afstöðu margra sem vilja segja sig úr Evrópusambandinu. Eiríkur Bergmann segir stóraukinn flóttamannastraum hafa verið vatn á myllu þeirra sem vilja takmarka fólksflutninga til Bretlands. Hin hliðin á þeirri umræðu séu atvinnuréttindi Evrópusambandsborgara í Bretlandi. Margir frá Austur-Evrópu hafi flust til Bretlands og mögum þyki sá straumur full stríður.

Rök með áframhaldandi veru

Eiríkur Bergmann segir að rök þeirra sem vilja vera áfram í ESB séu, líkt og andstæðinganna, bæði pólitísk og efnahagsleg. Utan sambandsins minnki áhrif Breta á alþjóðavettvangi og þeir, þetta gamla heimsveldi, verði einungis miðlungsveldi. Þeir vilji hafa áhrif á heimsvísu og það sé betur tryggt með ESB aðild.

Efnahagslega séu flestir breskir hagfræðingar sammála um að efnahagur Breta njóti mjög góðs af verunni á innri markaðnum.

Það eru ekki bara breskir hagfræðingar sem telja að veran í Evrópusambandinu gagnist breskum efnahag. Í nýrri skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er eindregið varað við útgöngu Breta. Hún geti haft alvarlegar afleiðingar ekki bara fyrir Breta og Evrópu heldur heiminn allan.  

Andstaða við brottför utan Bretlands

Margir aðrir hafa lýst eindregnum stuðningi við áframhaldandi veru Breta í ESB, margir áhrifamenn í Bandaríkjunum hafa til dæmis gefið sterklega í skyn að þeir telji að það væri hið mesta óráð að ganga út. Barack Obama Bandaríkjaforseti er væntanlegur til Bretlands á föstudag og búist er við að hann ráðleggi Bretum þá að fara hvergi. Flest stærri fyrirtæki, ekki síst þau sem byggja á útflutningi, vilja að Bretar verði áfram í ESB. Forstjóri Airbus UK, Paul Kahn, segir að ESB aðildin styrki Airbus á heimsvísu, viðskiptamódel fyrirtækisins treysti á frjálst flæði fólks, hugmynda, auðlinda og fjármagns. Það sé undirstaða rekstrarins.

Úrsögn kynni að ógna framtíð Sameinaða konungdæmisins 

Úrsögn Breta úr Evrópusambandinu kynni mögulega að leiða til upplausnar Sameinaða konungdæmisins, United Kingdom. 

Eiríkur Bergmann segir að kjósi Bretar að fara út en jafnvel tveir þriðju hlutar Skota vilji vera áfram muni það framkalla nýja umræðu um stöðu Skotlands.

Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra skosku stjórnarinnar, dregur raunar ekki dul á að kjósi Bretar útgöngu hljóti Skotar að hugsa að nú sé kominn tími fyrir sjálfstæði. ,,Ég tel að ef Bretar ákvæðu að yfirgefa ESB, sem ég vona að þeir geri það ekki, og Skotar væru á öðru máli þá myndu Skotar óhjákvæmilega velta fyrir sér hvort ekki væri best að vera sjálfstæðir."

Eiríkur Bergmann bendir einnig á að færu Bretar myndu Norður-Írar færast lengra frá Írlandi sem er í Evrópusambandinu. Þá gætu Norður-Írar hafið nýja baráttu fyrir sameiningu við Írland. Ef svo færi yrðu bara England og Wales eftir og fyrir ýmsum sé það mjög trámatískt hugsun.

Martin McGuinness, leiðtogi Sinn Féin sem er annar stjórnarflokkanna á Norður-Írlandi, hefur raunar sagt að fari Bretar úr ESB muni flokkurinn óska eftir atkvæðagreiðslu um sameiningu Írlands. Hann segist telja báða hluta Írlands eiga heima í Evrópusambandinu.

Kosningabarátta hafin

Kosningabaráttan hófst formlega fyrir helgi. David Cameron slóst í hóp annarra ráðherra og forystumanna úr stjórnarandstöðuflokkum í hringingaherferð til að telja fólk á að greiða atkvæði með áframhaldandi veru í ESB.

Aðrir ráðherrar út stjórn hans og áhrifamenn úr Íhaldsflokknum hringdu á sama tíma til að hvetja kjósendur til að greiða atkvæði með úrsögn.

Gamalkunnugt andlit úr breskum stjórnmálum og þjóðaratkvæðagreiðslu Skota um sjálfstæði birtist á ný sem einn helsti talsmaður áframhaldandi veru, Alistair Darling, fyrrverandi fjármálaráðherra. Hann segir að fari Bretar úr ESB gefi það skýrt til kynna að Bretar séu þjóð á undanhaldi. Það stefni störfum í hættu og veiki efnahaginn. Útganga sé ekki útgjaldalaus og áhættulaus tilraun. Darling segir að blikur séu á lofti í efnahagslífi heimsins og það geri útgöngu mun áhættusamari en ella. Darling og aðrir sem vilja vera áfram í sambandinu segja að gríðarmikilvægum viðskiptum við þjóðir Evrópu erði stefnt í hættu með útgöngu.

Talsmenn útgöngu segja það hreina firru að viðskiptum við Evrópu yrði stefnt í hættu fari Bretar, eins og Darling og fleiri halda fram. Nigel Farage, leiðtogi breska sjálfstæðisflokksins, UKIP, segir allar þjóðir heims hafa aðgang að innri markaði ESB. ,,The truth, Mr. Darling, is that we have a rotten deal", segir Farage. Bretar beri skarðan hlut frá borði. Bretar borgi stórfé til að láta fylgjast með öllum breskum fyrirtækjum og fæst þeirra eigi nokkur viðskipti við ESB. Sambandið komi í veg fyrir að Bretar geti gert eigin viðskiptasamninga við ríki breska Samveldisins og önnur ríki. Þetta er alvont og við getum gert miklu betur segir Nigel Farage.

Viðsnúningur á afstöðu

Samkvæmt frétt Telegraph 19. apríl hefur orðið mikill viðsnúningur á afstöðu Breta á rúmum mánuði. 15. mars vildu 45 prósent vera áfram, en 52 prósent segja sig úr ESB. 5. apríl voru tölurnar 49 og 48 prósent, en nú vilja 52 prósent vera áfram í Evrópusambandinu, en 43 prósent fara. 

Vera kann að viðvaranir innlendra og erlendra ráðamanna um áhættuna sem fylgi úrsögn hafi breytt afstöðu fólks eða bæklingur sem stjórnvöld létu bera út. Í honum kemur fram skýr afstaða stjórnarinnar gegn úrsögn.

Ef til vill hafa útreikningar fjármálaráðuneytisins skipt máli, en þar er spá að árið 2030 yrði hvert heimili fátækara sem næmi rúmlega 750 þúsund krónum ef Bretar ákveða að segja sig úr ESB.

George Osborne, fjármálaráðherra Bretlands, segir þessa útreikninga sýna svo ekki verði um villst að óráð væri að segja skilið við ESB. Úrsagnarsinnar hafna þessum útreikningum, segja þvert á móti að gríðarháar upphæðir, sem Bretar greiða nú til ESB, myndu sparast. Chris Carter hjá samtökum sem berjast fyrir úrsögn Breta segir að vikulega sendi Bretar 62 milljarða íslenskra króna til Brussel og þetta fé geti þeir notað heima fyrir til að byggja sjúkrahús og annað.