Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Tárin fylla hálft Þingvallavatn

26.10.2015 - 21:02
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Eiríkur Finnur Greipsson, kona hans og tveir synir björguðust úr snjóflóðinu sem féll á Flateyri fyrri tuttugu árum. Hann segir tárin sem fallið hafa á þeim tveim áratugum sjálfsagt nægja til að fylla hálft Þingvallavatn.

Elsti sonur þeirra hjóna var ekki í bænum, svo öll fjölskyldan bjargaðist. Fyrir vikið taldi Eiríkur sig ekki þurfa á áfallahjálp að halda, það væri óþarfi að væla yfir því að missa veraldlegar eigur. Annað kom á daginn þegar hann lét loks til leiðast. „Ég grét eins og krakki í tuttugu og fimm mínútur og rétt gat stunið upp síðustu fimm mínúturnar að ég þyrfti líklega að koma aftur.“ Eiríkur hefur síðan verið einarður talsmaður þess að allir sem verða fyrir áfalli leiti sér hjálpar og vinni úr því. 

Eiríkur og hans fjölskylda kusu að búa áfram fyrir vestan, en hann segir samfélagið á Flateyri hafa breyst mikið eftir flóðið. 120 manns af um 400 íbúum fluttu burt næsta árið.

Eiríkur segir byltingu hafa orðið í umræðu um snjóflóðavarnir og varnarmannvirkin allt önnur en áður voru. En það er ekki alltaf hægt að verja, stundum þarf að rýma og þá þarf að meta aðstæður.

„Þetta er ekki auðvelt og ég öfunda ekki það fólk sem starfar við það. Það er örugglega vanþakklátt starf, en við skulum segja það alltaf, að það er betra að rýma, það er betra að fara úr húsi heldur en að taka einhverja óþarfa áhættu. Lífið er bara svo mikils virði.“