Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Tanngreiningar á valdi Háskóla Íslands

27.04.2019 - 23:39
Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Mennta- og menningarmálaráðherra segir aldursgreiningar á tönnum umsækjenda um alþjóðlega vernd alfarið á valdi háskólans. Í svari Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, við fyrirspurn Loga Einarssonar um aldursgreiningar Háskóla Íslands á tönnum seigr hún að háskólar séu sjálfstæðar menntastofnanir og viðfangsefni rannsókna og kennslu á fræðasviðum háskóla eigi að vera óháð afskiptum þeirra sem eiga skólann og leggja honum til fé.

„Af því leiðir að ráðherra íhlutast ekki um starfsemi einstakra deilda, svo fremi að háskóli uppfylli ákvæði laga um háskóla," segir í svarinu. Hún segir jafnframt að ráðuneytinu sé kunnugt um drög að samkomulagi milli Háskóla Íslands og Útlendingastofnunar um aldursgreiningu út frá tannþroska hafi verið til skoðunar hjá vísindasiðanefnd háskólans. Siðanefndin komst að þeirri niðurstöðu að læknisfræðilegar prófanir sem þessar féllu ekki undir vísindasiðareglur skólans.

Lilja tekur einnig fram að óheimilt er að þvinga umsækjanda um alþjóðlega vernd eða umsækjanda um dvalarleyfi vegna fjölskyldusameingingar til að gangst undir aldursgreiningu. Eins getur synjun á umsókn um alþjóðlega vernd ekki byggst eingöngu á því að viðkomandi hafi neitað að gangast undir slíka greiningu.

Greiningarnar eru umdeildar, bæði innan og utan háskólasamfélagsins. Í haust greindi fréttastofa frá því að starfsmenn og doktorsnemar við félagsvísindasvið, menntavísindasvið og hugvísindasvið Háskóla Íslands ásamt Stúdentaráði og Landssamtökum íslenskra stúdenta mótmælti tanngreiningunum. Þá benti Stúdentaráð ásamt hópi doktorsnema og starfsmanna HÍ á að Rauði krossinn hafi ítrekað gagnrýnt að tanngreining sé ekki hluti af heildarmati við aldursgreiningu, slíkt heildarmat sé ekki unnið að Útlendingastofnun.

UNICEF og Evrópuráðið hafa einnig tekið þátt í að gagnrýna tanngreiningar. Aðferðin er sögð fela í sér inngrip, hún sé úrelt, niðurstöður hennar óáreiðanlegar og ónákvæmar. Dæmi séu um að börn hafi verið ranglega greind sem fullorðnir einstaklingar í umsóknarferli sínu um alþjóðlega vernd hér á landi.