Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Talsverður vilji til sameiningar á Austurlandi

06.04.2018 - 16:06
Mynd með færslu
 Mynd: AP Images - RÚV
Talsverður vilji er til sameiningar sveitarfélaga Austurlandi samkvæmt könnun sem lögð var fyrir íbúa sex sveitarfélaga. Í búar á Fljótsdalshéraði, í Fljótsdalshreppi, á Borgarfirði eystra, Djúpavogi, Seyðisfirði og Vopnafirði voru spurðir hvort þeir vildu sameina öll þessi sveitarfélög, hluta þeirra eða allt Austurland. Fjarðabyggð og Breiðdalshreppur voru ekki með í könnuninni en samþykkt var nýverið að sameina þau tvö.

Helstu niðurstöður könnunarinnar eru þær að á Fljótsdalshéraði vildu 64% sameina sveitarfélögin 6, 19% hluta þeirra, og 32% allt Austurland. Aðeins 5% vildu enga sameiningu. Hægt var að merkja við fleiri en einn kost.

Á Seyðisfirði vildu 51% sameiningu 6 sveitarfélaga, 28% vildu sameina hluta þeirra og 20% sameina allt Austurland. Aðeins 13% þeirra sem tók þátt á Seyðisfirði vildu enga sameiningu.

Á Borgarfirði eystra vilja 26% sameiningu 6 sveitarfélaga, 19% sameina hluta þeirra og 15% sameina allt Austurland. 25% vilja enga sameiningu.

Á Djúpavogi vildu 41% þátttakenda sameina sveitarfélögin sex. 18% vildu sameina hluta þeirra og 27% vildi sameina allt Austurland. Þar vildu 16% enga sameiningu.

Í Fljótsdalshreppi vildu hins vegar 67% enga sameiningu og í Vopnafjarðarhreppi völdu 59% enga sameiningu. Í Fljótsdalshreppi merktu 50% við að leggja ætti áherslu á aukið samstarf og 40% á Vopnafirði. Sveitarfélögin sex reka nú þegar sameiginlega félagsþjónustu og brunavarnir.

Af þessu er ljóst að sérstakur áhugi er fyrir sameiningu á Fljótsdalshéraði, Seyðisfirði, Borgarfirði og á Djúpavogi. Tilgangur könnunarinnar var að veita nýjum sveitastjórnum sem taka við eftir kosningar í maí leiðbeiningar um vilja íbúanna vegna mögulegra sameiningarviðræðna.

Þátttaka í könnuninni var misjöfn, um helmingur tók þátt alls staðar nema á Fljótsdalhéraði, þar var þátttakan minnst eða 40% og hún var mest í Fljótsdal eða 77%. Í heildina var þátttakan 44%. Þetta var póstkönnun, send til allra í síðasta mánuði 18 ára og eldri. 

 

runarsr's picture
Rúnar Snær Reynisson
Fréttastofa RÚV