Athugið þessi frétt er meira en 4 ára gömul.

Talsverð röskun á samgöngum vegna veðurs

26.02.2019 - 09:07
Mynd með færslu
 Mynd:
Mjög slæmt veður er á sunnan- og austanverðu og norðaustanverðu landinu og hefur veðrið töluverð áhrif á samgöngur. Búið er að aflýsa flugi á tvo staði og nokkrum ferðum Strætó á landsbyggðinni. Samkvæmt Vegagerðinni er ekkert ferðaveður eins og er á Norðausturlandi, Austurlandi og Suðausturlandi. Vegurinn um Hvalnesskriður er lokaður vegna sand- og grjótfoks.

Búið er að aflýsa flugi til og frá Egilstöðum og Húsavík. Ekki hefur verið flogið á Akureyri í morgun en á að reyna aftur seinni partinn. Flug hefur ekkert raskast á Keflavíkurflugvelli, samkvæmt upplýsingum frá Isavia.

Fyrri ferð Herjólfs frá Vestmanneyjum til Þorlákshafnar féll niður vegna veðurs. Þá hefur veðrið áhrif á ferðir Strætó á landsbyggðinni. Ferðir milli Víkur og Hafnar í Hornafirði falla niður í dag og einnig allar ferðir á milli Akureyrar og Egilstaða. Fyrstu ferðir milli Akureyrar og Siglufjarðar og Akureyrar og Húsavíkur féllu niður í morgun en athugað verður með akstur eftir hádegi.